Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Líf og fjör í Sandgerði á laugardag
Fimmtudagur 7. september 2006 kl. 10:30

Líf og fjör í Sandgerði á laugardag

Reynir Sandgerði tekur á móti toppliði Fjarðabyggðar í 2. deild karla á laugardag kl. 14:00 á Sandgerðisvelli. Síðasta umferð 2. deildar fer fram um helgina en þegar er ljóst að Njarðvík, Fjarðabyggð og Reynir munu taka sæti í 1. deild að ári. Njarðvíkingar mæta Huginn sama dag kl. 14:00.

Frítt verður á Sandgerðisvöll á laugardag í boði TROS í Sandgerði og er fólk hvatt til þess að fjölmenna á völlinn. Að leik loknum mun Hvíti herinn, stuðningsmannasveit Reynis, vera með uppákomu við Sandgerðisvöll.

Síðar um kvöldið verður svo skemmtun á Vitanum í Sandgerði á vegum knattspyrnudeildar Reynis. Nú þegar ljóst er að Sandgerðingar muni leika í 1. deild að ári eru stór orð sem taka þarf ábyrgð á. Framkvæmdastjóri ksd Reynis verður snoðklipptur en hann lagði hár sitt að veði fyrir leiktíðina og formaður deildarinnar þarf að standa undir stærstu orðum sem hann hefur látið falla.

Í fyrra þegar Reynismenn léku í 3. deild hét formaðurinn Sigursveinn Bjarni Jónsson því að hann myndi hlaupa um á þvengnærbuxum einum fata ef Sandgerðingum tækist að komast í 2. deild. Sigursveinn stóð við stóru orðin og sagði á árshátíð Reynis í fyrra að ef félagið myndi fara aftur upp um deild þá myndi hann sleppa þvengnum og setti hann á uppboð á árshátíðinni og fór hann á heilar 15.000 krónur.

Hvað Sigursveinn gerir á laugardag verður að koma í ljós en aðstandendur knattspyrnudeildarinnar spá fyrir miklu sjónarspili.

Árshátíð ksd Reynis fer svo fram laugardaginn 16. september í Samkomuhúsinu í Sandgerði. Miðapantanir og nánari upplýsingar um hátíðina má nálgast hjá framkvæmdastjóra knattspyrnudeildarinnar í síma 899 9580.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024