Lið ÍRB sigraði á AMÍ !
Lið ÍRB vann frábæran sigur á Aldursflokkameistaramóti Íslands í sundi sem fór fram á Akureyri um helgina.
Liðsmenn deidarinnar stóðu sig frábærlega allir sem einn og börðust allt til lokasunds. Uppskeran var því í samræmi við það í mótslok. Yfirburðasigur og langþráður titill loks í höfn. Með þessum titli þá hefur sigursælu liði ÍRB tekist að vinna alla þá titla sem í boði eru hérlendis.
Liðsmenn ÍRB unnu alls 39 Íslandsmeistaratitla af þeim 90 sem í boði voru, og lokastaða tveggja efstu liða var í mótslok: ÍRB 1543 og SH 1393. Undanfarin ár hefur lið SH verið með þennan titil í vörslu sinni en liðsmenn ÍRB voru staðráðnir í því að láta það ekki henda aftur.
Í stigakeppni einstaklinga þar sem keppt er um titla í sex flokkum unnu sundmenn ÍRB tvo titla. Jóna Helena Bjarnadóttir vann þann titil í meyjaflokki eftir mikla keppni við stöllur sína í ÍRB þær Soffíu Klemenzdóttur og Diljá Heimisdóttur, en þessar meyjar voru nánast einráðar um alla titla í þessum aldursflokki.
Í flokki stúlkna sigraði Erla Dögg Haraldsdóttir með yfirburðum og var hún einnig algjörlega einráð í þeim greinum sem hún tók þátt í.
Einn af liðsmönnum ÍRB setti aldursflokkamet á mótinu, en það var Gunnar Örn Arnarson sem setti nýtt og glæsilegt met í 200m bringusundi og bætti gamla metið um rúmlega tvær sekúndur. Þetta er annað metið sem Gunnar Örn slær á skömmum tíma og greinilegt er að hann á framtíðina fyrir sér í sundinu.
Mótið fór fram í blíðskaparveðri í sundlauginni á Akureyri og var að sögn aðstandenda sundliðsins gríðarlega skemmtilegt og spennandi í alla staði. Mótinu lauk með lokahófi í íþróttahöllinni á Akureyri þar sem borðaður var góður matur dansað og sungið. Í lokin fengu liðsmenn ÍRB síðan bikarinn eftirsótta afhentan. Þreyttir og ánægðir keppendur fóru því heimleiðis með bikar,ásamt sól og gleði í hjarta að loknu móti.
Myndir/1: ÍRB stúlkur í toppsæti sem fyrr. 2: Jóna Helena Bjarnadóttir ÍRB, stigahæst í meyjaflokki