Lengjudeild karla: Flottur útisigur hjá Grindavík - Keflavík tapaði
Grindvíkingar unnu sigur eftir að hafa lent tveimur mörkum undir en Keflvíkingar töpuðu í 12. umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu. Njarðvíkingar leika á morgun, laugardag.
Grindvíkingar lentu 2-0 undir gegn heimamönnum í Fjölni en sóttu heldur betur í sig veðrið í síðari hálfleik og skoruðu þrjú mörk á átta mínútna kafla um miðjan síðari hálfleik. Ármann I. Finnbogason skoraði fyrsta mark Grindvíkinga úr aukaspyrnuy og Adam Árni Róbertsson jafnaði leikinn 2-2. Það var svo Sindri Þór Guðmundsson sem kom UMFG í 2-3.
Heimamenn í Fjölni fengu svo vítaspyrnu á 81. mínútu sem Matias Niemela varði og gulltryggði sigur eftir erfið nokkur töp að undanförnu.
Haraldur Árni Hróðmarsson, þjálfari Grindvíkinga sagði sína menn hafa verið stressaða og slaka í fyrri hálfleik en allt annar bragur hafi verið á þeim í síðari hálfleik.
Sigurbjörn Daði blaðamaður VF ræddi við hann og Adam Árna Róbertsson eftir leik. Sjá hér neðar í fréttinni.
Keflvíkingar gátu lyft sér ofar á töfluna með sigri á Þrótti úr Reykjavík á heimavelli þeirra síðarnefndu en liðin voru á svipuðum stað í deildinni. Þeim varð ekki sú kápan úr klæðinu því þeir röndóttur unnu 3-2 í fjörlegum leik. Þeir komust yfir á 32. mínútu en Marin Mudrazija jafnaði á 35. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Þróttarar skoruðu á 58. og 86. mínútu og komust í 3-1. Eiður Orri Ragnarsson minnkaði muninn fyrir bítlabæjarliðið á 88. mínútu en það dugði ekki til. Sindri K. ÓIafsson, markvörður Keflvíkinga var svo rekinn af velli á 94. mínútu fyrir brot.