Lengjubikarinn: Keflavík og Grindavik duttu út
Keflavík og Grindavík komust hvorugt í úrslit Lengjubikarsins í körfuknattleik karla en undanúrslitin fóru fram í gær. Keflvíkingar tóku á móti KR og Grindavík mætti Snæfelli í Hólminum.
KR-ingar höfðu yfirhöndina í fyrrihálfleik og fóru í hálfleikinn með 14 stiga forskot á Keflvíkinga, 50-36. Heimamenn komu mun grimmari í seinni hálfleikinn og náðu að komast yfir þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. KR-ingar náðu hins vegar að snúa leiknum sér í hag á lokasprettinum og sigruðu 92-88.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson var stigahæstur í liði heimamanna með 25 stig og 10 fráköst.
Aðeins þrjú stig skildu að lið Grindavíkur og Snæfells í leikslok, 101-98. Fyrsti leikhlutinn var í járnum. Snæfell byrjaði annan leikhluta með miklum látum, skoraði fyrstu 14 stigin og 34 stig gegn 22 í leikhlutanum. Staðan í hálffleik var 61-50 fyrir Snæfell.
Grindvíkingar sýndu mikla baráttu í seinni hálfleik, enda þekktir fyrir seiglu. Í fjórða leikhluta náðu þeir að jafna leikinn 93-93 og framundan voru æsispennandi lokamínútur. Lukkan var með Snæfellingum í þetta skiptið og þeir náðu að sigra 101-98 eins og áður segir. Andre Smith var stigahæstur í liði Grindavíkur með 34 stig.
Það verða því lið KR og Snæfells sem leika til úrslita í keppninni.
Mynd/www.karfan.is - Elentínus Margeirsson reynir að finna leið að körfu KR-inga