Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Lék einn æfingaleik – skoraði fjögur
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 13. júní 2021 kl. 08:05

Lék einn æfingaleik – skoraði fjögur

Hann er úr Garðinum, byrjaði í Víði en hefur leikið knattspyrnu með Keflavík síðan í fjórða flokki. Það eru miklar breytingar framundan hjá hinum sautján ára gamla Birni Boga Guðnasyni en hann er að stíga sín fyrstu skref í atvinnumennsku og á leið til hollenska úrvalsdeildarliðsins Heerenveen síðar í mánuðinum. Víkurfréttir settust niður með Birni Boga og mömmu hans, Jónínu Magnúsdóttur, og fengum að kynnast þessum unga manni lítillega.

„Ég er mjög sáttur við þetta, bara geggjað tækifæri. Ég fór þarna út í apríl og leist mjög vel á allar aðstæður.“

– Þú lékst æfingaleik þá, er það ekki?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Jú, ég fékk einn æfingaleik ...“

... og skoraðir bara fjögur mörk.

„Já,“ segir Björn og skellir upp úr.

„Þetta var svolítið fyndið,“ segir Jónína. „Ég sagði við hann fyrir leikinn: „Þú verður alla vega að skora eitt til að sýna að þú getir skorað.“ Svo þegar hann sendi mér skilaboð; „Unnum 9:1, ég skoraði fjögur,“ þá hélt ég að hann væri að ljúga.“

„Það héldu allir að ég væri að ljúga,“ bætir Björn við.

Fjölskyldan sem aldrei er kyrr

– Þetta er svaka íþróttafjölskylda, eru ekki allir í einhverri hreyfingu?

„Jú, við erum öll alltaf á hreyfingu,“ segir Jónína. „Þessi fjölskylda situr ekki kyrr. Magnús Máni, sá yngsti [níu ára], er líka kominn í fótboltann og svo er hann í tónlistarskólanum líka. Hann er svo músíkalskur, er að læra á gítar og hefur líka mjög gaman af því að syngja. Ingimundur er í meistaraflokki Keflavíkur og hefur ávallt stundað boltann vel og verið bróður sínum fyrirmynd. Hann lærði á trompet en hætti þegar hann var tólf ára en Björn fór í tvær vikur á píanó. Við hlæjum oft af því, það var ekki alveg það sem hann hafði áhuga á að gera. Hann gæti orðið góður á gítar, er með svo langa fingur, og ég sé fyrir mér að hann fari að plokka meira á gítarinn núna. Þannig að það er aldrei að vita.

Pabbi þeirra var mjög góður í fótbolta með Víði áður fyrr og honum var boðið að fara í Keflavík í öðrum flokki en hann hafði aldrei neinn áhuga á fótbolta, var meira í golfi og hafði miklu meiri áhuga á því – svo eignuðum við Ingimund,“ segir Jónína hlæjandi og það má lesa út úr því að upp frá þeim degi hefur fjölskyldan eiginlega setið uppi með fótboltann sem aðaláhugamál.

– Hvernig verður þetta hjá þér þarna úti, hvar muntu búa?

„Ég verð, ásamt fjórum öðrum, hjá fjölskyldu sem mun sjá um mig. Svona stuðningsfjölskyldu. Þau sjá um að elda mat fyrir mig, þvo þvottinn og svona.“

Mamma hans bætir við: „Hann kann alveg að elda og þvo fötin sín sjálfur. Hann er enginn stórkokkur en bjargar sér með ýmislegt – en það hefur nú ýmislegt gerst hérna búandi með fjórum karlmönnum.“

Að hafa eignast þrjá stráka sem hafa allir áhuga á fótbolta gerir hann að aðaláhugamáli fjölskyldunnar.

Aukaæfingin skapar meistarann

Björn Bogi byrjaði að æfa fótboltann með Víði en skipti yfir í Keflavík á yngra ári í fjórða flokki. „Bara beint í ellefu manna bolta,“ segir hann. Björn hefur verið í Keflavík síðan að undanskyldu síðasta tímabili sem hann lék með Víði í annarri deild á láni frá Keflavík.

Björn Bogi lék með Víði þar til í fjórða flokki.

– Hvernig líst mömmunni á þetta?

„Að hann sé að fara út? Mér finnst þetta frábært tækifæri fyrir hann. Hann er búinn að láta sig dreyma um þetta lengi, eins og margir ungir drengir, að komast út og spila með erlendu félagsliði – en hann hefur kannski gert meira en margir aðrir. Hann hefur verið rosa duglegur að stunda aukaæfingar og sýnt staðfestu í fótboltanum, ekkert gefist upp þótt á móti blási. Hann er með gott hugarfar, finnst mér. Ótrúlega þrautseigur.

Þegar hann var lítill var hann farinn að skrifa upp æfingarnar sjálfur, setja sér markmið og hann var úti heilu klukkutímana, einn að æfa sig.“

– Og aldrei neitt annað en fótbolti?

„Nei, bara fótbolti,“ svarar Björn. „Einu sinni fór ég í parkour, í svona eitt ár. Eina önn eða eitthvað svoleiðis. Svo var ég aðeins í sundi.“

„Það er um að gera að prófa fleiri íþróttir,“ segir Jónína. „Allir ættu að vera óhræddir við það, það eiga ekki allir heima í fótbolta en Björn hefur einhvern veginn alltaf verið með með hugann við boltann. Hann hefur alveg þurft að æfa sig til að verða betri, hafa fyrir hlutunum. Þetta gerist ekki náttúrulega, þú þarft alltaf að vera á tánum.

Maður átti nú samt ekki von á þessu alveg strax, eftir eitt „trial“, að honum skyldi vera boðinn samningur strax. Bjóst nú kannski frekar við að þeir myndu vilja hitta hann aftur.“

– Hvað áttu marga landsleiki með yngri landsliðum?

„Tvo með U15. Ég er búinn að vera svona inn og út úr þessu liði, hef verið á úrtaksæfingum en ekki verið valinn í lokahóp. Ég veit að það er verið að fylgjast með mér og vona að ég fái fleiri sénsa bráðlega. Aðalmálið er samt að standa sig vel með sínu félagsliði, það er það sem skiptir öllu. Landsliðið er bónus.“

Björn Bogi með foreldrum sínum, Guðna Ingimundarsyni og Jónínu Magnúsdóttur.

Verður í fjarnámi

Heerenveen er norður af Amsterdam og Björn segist hafa verið um klukkutíma að keyra þangað af flugvellinum. „Þetta er ekki langt að fara.“

– Þannig að það er möguleiki að mamma kíki í heimsókn.

„Já, hún er strax búin að panta sér far,“ segir Jónína ákveðin.

– Hvernig eru svo aðstæðurnar hjá Heerenveen?

„Þetta er geggjað umhverfi, ég fór bara beint út að skokka þegar ég var þarna. Það eru flottir þjálfarar og flott fólk sem er þarna.

Mitt markmið eru að komast í meistaraflokkinn hjá þeim sem fyrst, það er ekkert annað í boði.“

Björn Bogi hefur lítið verið að æfa og spila undanfarið þar sem smávægileg meiðsli hafa verið að hrjá hann en Björn er kominn með æfingaprógram frá Heerenveen sem hann æfir eftir þessa dagana og leggur sig fram við að vera kominn í toppstand þegar hann fer út í læknisskoðun. „Þetta er sennilega bara smávægileg tognun eða eitthvað svoleiðis aftan í lærinu svo ég hef farið varlega undanfarið og ekki verið að æfa á fullu.“

– Hvernig ætlarðu að haga náminu?

„Ég verð í fjarnámi í Menntaskólanum á Tröllaskaga,“ segir Björn sem var hefur verið við nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann var svolítið seinn að sækja um segir mamma hans og gat því ekki verið í öllum þeim fögum sem hann hefði viljað. „Hann tekur aðeins minna núna en tekur svo bara meira á vorönninni – en það er samt í lagi og kannski ágætt að nota tímann til að aðlagast þessum breyttu aðstæðum.“

– Hvað ætlarðu svo að læra?

„Ég er ekki alveg búinn að ákveða það en eins og staðan er núna þá verður það sennilega sálfræði, mér finnst það líklegast.“

„Ég sé hann alltaf fyrir mér í einhverju stafrænu umhverfi, markaðssetningu eða eitthvað þannig,“ segir Jónína. „Það kemst bara einhvern veginn ekkert annað að en fótboltinn en það er mikilvægt að mennta sig samhliða honum. Ótrúlega mikilvægt, jafnvel þótt fókusinn sé alltaf fyrst og fremst á fótboltanum þá mun hann bara gera það á lengri tíma.“

Frábær fyrirmynd

Björn Bogi mun án efa verða hvatning fyrir marga unga fótboltastráka og -stelpur en hann hefur alltaf gefið sér tíma til að sinna yngri krökkum. Mamma hans segir að hann hafi oft verið einn út á Gerðatúni með krökkum úr Garðinum með keilur og kennt þeim allskonar æfingar og svo aðstoðaði Björn við þjálfun sjöunda og áttunda flokks hjá Víði í fyrrasumar og þótti ná vel til krakkanna. „Mér þótti þetta rosalega gaman en ég væri samt meira til í að vera með aðeins eldri krakka, svona fimmta flokk,“ segir Björn Bogi.

Tæknilega góður og frábær fyrirmynd

Eysteinn Húni Hauksson, þjálfari Björns Boga hjá meistaraflokki Keflavíkur, hefur mikið álit á Birni sem knattspyrnumanni og efast ekki um hæfni hans á því sviði:

„Björn Bogi er fyrst og fremst mjög góður tæknilega og Hollendingarnir hafa ekki þurft langan tíma til að sjá það. Hann er frábær fyrirmynd fyrir aðra iðkendur, skynsamur og yfirvegaður drengur og þegar þú blandar því við hæfileika og einskæra, brennandi ástríðu er alltaf líklegt að árangur náist. Það er mikil viðurkenning fyrir hann að vera boðinn samningur hjá Heerenveen enda um að ræða draum allra ungra stráka sem stunda fótbolta af metnaði að fara í atvinnumennsku. Ekki síður er þetta frábært fyrir unglingastarfið hjá Keflavík að Björn Bogi fái þetta spennandi tækifæri. Keflvíkingar munu fylgjast vel með þróun mála hjá honum og við óskum honum sannarlega alls hins besta.“