Leikmönnum Keflavíkur bannað að tala við fréttamenn
Fréttamaður Víkurfrétta fékk þau skilaboð eftir leik að leikmenn Keflavíkur myndu ekki tala við fréttamenn. Þegar Kristján var spurður út í þetta eftir viðtal við hann staðfesti hann þetta. „Ég ákvað að taka það dæmi bara sjálfur núna og vildi ekki að þeir færu að tjá sig við ykkur,“ sagði Kristján.
Þetta er afar sjaldgæft og man fréttamaður Víkurfrétta ekki eftir því áður eftir leik í Keflavík að leikmenn hafi ekki mátt ræða við fréttamenn.
Var Skagauppákoman rothögg?
Keflvíkingar hafa aðeins náð einu stigi úr síðustu fjórum leikjum í Landsbankadeildinni í knattspyrnu. Eftir umdeildasta leik sumarsins þar sem Skagamenn stálu sigri með óheiðarleika-marki Bjarna Guðjónssonar á Skipaskaga í síðasta leik fyrri umferðar hafa Keflvíkingar ekki unnið leik. Svo virðist sem uppákoman hafi farið illa í bikarmeistara Keflavíkur því þeir hafa ekki unnið leik í síðustu fjórum umferðum.
Þeir gerðu jafntefli við botnlið KR í fyrsta leik seinni umferðar en síðan hafa komið tvö töp, á móti FH og síðan núna á móti Blikum.
Keflavík er nú í 4.-5. sæti en Skagamenn eru í 3.sæti eftir sigur á Fram í kvöld. FH trónir á toppnum og Valsmenn eru í öðru sæti.
Vf-mynd: Magnús Sveinn.