Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Leikmenn Njarðvíkur sníktu far eftir að þeir villtust
Laugardagur 16. september 2017 kl. 08:00

Leikmenn Njarðvíkur sníktu far eftir að þeir villtust

- Fyrirliðinn Styrmir Gauti ræðir fótboltasumarið

Fyrirliði Njarðvíkur í knattspyrnu, Styrmir Gauti Fjeldsted, er ansi kátur þessa dagana en lið Njarðvíkur tryggði sér sæti í Inkasso- deild karla síðastliðna helgi og náðu þar með markmiði sínu fyrir sumarið. Ferðalög hafa verið stór partur af sumrinu hjá Njarðvíkurliðinu og hefur ýmislegt gerst á þeim ferðum. Við fengum Styrmir til að svara nokkrum spurningum fyrir okkur.

Hvert var markmið ykkar fyrir sumarið?
„Markmið sumarsins var skýrt frá október á seinasta ári. Rafn og Snorri héldu þá fund með þeim leikmannakjarna sem hefur verið í Njarðvík síðustu ár og var markmiðið sett á það að komast upp um deild.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eru búin að vera meiðslavandræði hjá ykkur í sumar?
„Ég held við höfum verið nokkuð heppnir með meiðsli þetta sumarið. Steindór sundkennari vill eflaust meina að sundtímarnir hjá honum í vetur séu stóra ástæðan fyrir því. Góðvinur minn Davíð, sem var frábær á undirbúningstímabilinu, lenti reyndar í því að fótbrotna í síðasta leik fyrir tímabilið og hefur því misst af öllu tímabilinu og svo hafa lykilmenn eins og Andri og Teddi misst af nokkrum leikjum í sumar.“
 

Hvernig hefur stemningin verið í hópnum?
„Það hefur verið gríðarlega góð stemning og kannski ekki við öðru að búast þegar gengið hefur verið eins gott og í sumar. Hópurinn er nokkuð ungur og hafa ferðalögin í sumar mörg hver verið ansi skrautleg og skemmtileg.“

Víðir er í toppbaráttunni og hafa verið það með ykkur í sumar, eru leikirnir gegn þeim skemmtilegustu leikirnir?
„Það var virkilega skemmtilegt að fá Víði inn í deildina og leikirnir gegn þeim í sumar voru þeir leikir sem maður hlakkaði mest til að spila og að sama skapi þeir leikir sem manni langaði minnst að tapa. Leikurinn í Garði síðustu helgi er leikur sem ég mun persónulega aldrei gleyma og að tryggja Inkasso-sætið með þessum hætti er ansi sérstakt.“

Ertu með einhverjar skemmtilegar sögur frá sumrinu?
„Besta sagan er líklega sagan frá fyrsta leik sumarsins þegar við fórum á Egilsstaði. Nokkrir leikmenn liðsins ákváðu að keyra á leikinn og gistu föstudagsnóttina á Djúpavogi. Laugardagsmorguninn var ansi viðburðarríkur hjá þessum leikmönnum en þeim tókst einhvern veginn að taka vitlausa beygju inn á hestaslóða þar sem þeir sprengdu tvö dekk á bílnum. Aðrir leikmenn og þjálfarar voru á Egilsstöðum í hádegismat og það vissi í raun og veru enginn hvað hafði orðið um þá. Strandaglóparnir tóku þá ákvörðun að labba af stað og enduðu þeir á að ganga yfir eina heiði, vaða yfir nokkuð straumþunga á og sníkja far hjá asísku pari sem skutlaði þeim í leikinn. Leiknum var frestað um 30 mínútur og leikmennirnir skiluðu sér á bekkinn þegar 25 mínútur voru liðnar af leiknum, nokkuð skömmustulegir.“
Ég vil hvetja alla stuðningsmenn okkar til að mæta á síðasta heimaleik okkar í dag þar sem við eigum möguleika á að tryggja okkur deildarmeistaratitilinn.