Leikmenn hafa sýnt mikla tryggð
Nýir tímar hjá Grindvíkingum í knattspyrnunni
Knattspyrnudeild Grindavíkur gengur í gegnum mikla endurskipulagninu um þessar mundir. Karlaliðið féll úr efstu deild síðastliðið sumar og við það hafa rekstrarforsendur breyst til muna. Þrátt fyrir það býst Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildarinnar, við að halda nær öllum leikmönnum karlaliðsins á næstu leiktíð. Stefnan er sett á að fara beint upp í efstu deild á nýjan leik.
„Það hefur auðvitað mikið breyst hjá okkur og við höfum þurft að endurskipuleggja rekstur okkar frá grunni,“ segir Jónas. „Sú leið sem við höfum ákveðið að fara er að lækka launakostnaðinn um 25% og borga leikmönnum laun í níu mánuði á ári, frá janúar og út september. Ef vel gengur þá munum við verðlauna okkar leikmenn. Þeir leikmenn sem við höfum viljað halda munu vera áfram hjá Grindavík. Leikmenn okkar hafa sýnt mikla tryggð við klúbbinn og það er okkur ómetanlegt. Það eru kannski ekki allir sem gera sér grein fyrir hversu stór rekstur knattspyrnudeildarinnar er. Við erum með veltu upp á annað hundruð milljónir og 20 stöðugildi. Þetta er eitt af 15 stærstu fyrirtækjunum í Grindavík. Það er einnig athyglisvert að barna- og unglingastyrkir frá sveitarfélagi og UEFA duga ekki fyrir launatengdum gjöldum. Við höfum þurft að treysta á stuðning fyrirtækja og velunnara.“
Helgi tekur við kvennaliðinu
Það verða ekki bara breytingar hjá karlaliðinu því nýr þjálfari er kominn í brúnna hjá kvennaliðinu. Grindvíkingurinn Helgi Bogason, sem meðal annars þjálfaði karlalið Njarðvíkur um nokkurra ára skeið, hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Grindavíkur sem leikur í 1. deildinni. Í kjölfar ráðningar hans hafa nokkrir sterkir leikmenn ákveðið að snúa aftur heim. Í síðustu viku skrifuðu þær Bentína Frímannsdóttir, Þórkatla Sif Albertsdóttir, Elínborg Ingvarsdóttir, Sara Hrund Helgadóttir og Ágústa Jóna Heiðdal undir tveggja ára samning við félagið.
„Það eru lykilleikmenn að koma heim eftir að hafa verið að spila hjá öðrum liðum í efstu deild. Þetta eru allt heimastúlkur og við eigum von á fleirum,“ segir Jónas. „Það er oft þannig að þegar grindvískir leikmenn fara til annarra liða þá sjá þeir hversu gott þeir hafa það heima. Hjá Grindavík er mjög vel hlúð að öllum leikmönnum. Við erum mjög ánægðir með að fá Helga til starfa. Hann er frábær þjálfari og þekkir starfið hjá félaginu mjög vel. Við erum mjög bjartsýnir fyrir hönd kvennaknattspyrnunnar í Grindavík.“
Breyttar áherslur eru hjá Grindvíkingum um þessar mundir. Vel hefur verið hlúð að barna- og unglingastarfi klúbbsins undanfarin ár en nú á að bæta um betur og stórefla starfið. Ægir Viktorsson hefur verið ráðinn í fullt starf sem yfirþjálfari yngri flokka hjá félaginu. Hann mun einnig sjá um öll fræðslumál, dómarastjórn og samskipti við KSÍ. „Við viljum búa til leikmenn sem spila fyrir Grindavík í efstu deild. Við viljum auka gæðin og höfum bætt við þjáfurum. Scott Ramsey er meðal annars kominn í þjálfarateymið hjá okkur og í þessari endurskipulagningu höfum við sýnt mikinn styrk,“ segir Jónas að lokum.