Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 26. febrúar 2004 kl. 13:09

Leikir vikunnar í körfunni

Í kvöld:

KR-KEFLAVÍK/Intersport-deildin

Í kvöld halda Keflvíkingar til Reykjavíkur til að etja kappi við KR-inga í DHL-Höllinni. Keflvíkingar unnu fyrri leik liðanna nokkuð sannfærandi og leggja eflaust allt í sölurnar til að vinna þennan leik því þeir eiga enn möguleika á að stela öðru sætinu af Grindvíkingum. Fannar Ólafsson spilaði með liðinu í síðustu tveimur leikjum og stóð sig vel og á eflaust eftir að koma enn sterkari inn í næstu leikjum.
Guðjón Skúlason, annar þjálfarar Keflvíkinga, segir leikinn vera mjög mikilvægan ef þeir ætli að tryggja sér þriðja sætið í deildinni. „Svo hefur okkur gengið illa á útivöllum í vetur og við ætlum að breyta því. Menn eru að gíra sig uppúr smá lægð sem við erum búnir að vera í að undanförnu og erum að komast á skrið.“

SNÆFELL-NJARÐVÍK/Intersport-deildin

Njarðvíkingar sækja Snæfellinga heim í Stykkishólm í kvöld, og verður það enginn smá leikur. Snæfell hefur leikið óhemju vel í vetur og einungis tapað þremur leikjum, gegn Njarðvík, Keflavík og Grindavík, og eru firnasterkir á heimavelli.
Friðrik Ragnarsson segir sína menn búa sig undir mjög erfiðan leik. „Þeir eru náttúrulega búnir að vinna tíu leiki í röð núna og eru svakalega sterkir, en við höfum unnið þá tvisvar í vetur og getum gert það aftur, en þá verðum við að eiga algjöran toppleik.“

Á morgun:

GRINDAVÍK-HAMAR/Intersport-deildin

Á morgun freista Grindvíkingar þess að halda í við Snæfellinga sem hafa tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar. Hamar hefur tapað síðustu þremur leikjum sínum, en er öruggt með sæti í úrslitum. Þeir geta skotist ofar með góðum árangri í næstu leikjum, en Grindvíkingar eru með feikigott lið og eru staðráðnir í að komast upp í efsta sætið.
Friðrik Ingi segir sína menn ekki vera með hugann sérstaklega við að vinna deildarmeistaratitilinn heldur við að bæta sinn leik og vera tilbúnir þegar kemur að úrslitakeppninni. „Þetta er í sjálfu sér ekki í okkar höndum lengur þannig að við verðum bara að spila okkar leik, en við ætlum okkur að sjálfsögðu að sigra Hamar á okkar heimavelli.“

Laugardagur:

GRINDAVÍK-ÍR/1. deild kvenna

Ef Grindvíkingar vinna þennan leik á laugardaginn eru þær loks öruggar um sæti sitt í undanúrslitum. ÍR hafa hins vegar tapað síðustu 14 leikjum sínum og eru löngu fallnar. Grindvíkingar koma firnasterkar til þessa leiks og hafa verið að bæta sig jafnt og þétt eftir áramót. Þar sem ÍR er ekki að spila um neitt í þessum leik nema heiðurinn hlýtur að teljast nær fullvíst að Grindvíkingar vinni þennan leik og vinni stórt.
Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindvíkinga, segist nokkuð sigurviss, en segir að nú sé ekki tími til að gefa eftir. „Við ættum að vinna, en við erum ekki orðnar það góðar ennþá að við getum leyft okkur að hugsa þannig. Við ætlum að koma á keyrslu inn í úrslitakeppnina þannig að það væri gott að vinna þennan leik sannfærandi.“

Sunnudagur:

NJARÐVÍK-KFÍ/Intersport-deildin

Ísfirðingar hafa aðeins unnið einn útileik í allan vetur, gegn Þór Þorlákshöfn, og eru ekki beint líklegir til að sækja annan í Ljónagryfjuna á sunnudaginn. Njarðvíkingar eru með mun betra lið og betri menn í öllum stöðum, en hafa þó sýnt af sér einbeitningarleysi í sóknarleik sínum sem hefur kostað þá sigra. Ef þeir forðast slíkt og Brandon Woudstra heldur uppteknum hætti frá í síðustu leikjum á að vera hægt að bóka heimasigur.
Friðrik þjálfari Ragnarsson segir að engin hætta sé á vanmati þar sem þeir hafi brennt sig of oft á slíku í vetur. „Þetta er nú orðið gott í bili hjá okkur í þeim málum. Maður verður að bera virðingu fyrir öllum andstæðingum, en ég er sannfærður um að ef við mætum rétt stemmdir til leik eigum við eftir að taka þennan leik.“

ÍR-GRINDAVÍK/Intersport-deildin

ÍR-ingar hafa verið að sækja í sig veðrið eftir áramót og unnið nokkra góða sigra eftir að hafa vermt botnsætið um tíma. Þessir sigrar hafa þó verið að koma gegn liðum í neðri hluta deildarinnar, þannig að þeir virðast ekki hafa það sem til þarf til að vinna lið eins og Grindavík. Eugene Christopher og Maurice Ingram eru mennirnir sem Grindvíkingar þurfa að hafa gætur á auk Eiríks Önundarsonar og ef það gengur bærilega ættu Grindvíkingar að ná tveimur dýrmætum stigum úr þessum leik á sunnudaginn.
Friðrik Ingi segir ÍR verða erfiða andstæðinga sama hvað stöðunni í deildinni líður. „ÍR hafa verið að bæta sig mikið að undanförnu og eru með góðan mannskap. Leikur þeirra hefur batnað mikið eftir að þeir fengu Ingram til sín, enda er hann stór og mikill svoli, þannig að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin og við skulum ekki gleyma að þeir unnu okkur í fyrri leiknum í Hópbílabikarnum fyrir áramót.“

Mánudagur:

KEFLAVÍK-ÞÓR/Intersport-deildin

Keflvíkingar eru með langsterkasta heimavöll landsins og þangað hefur ekkert íslenskt lið sótt sigur í tæplega 40 viðureignum. Þór byrjaði deildina af krafti, en hafa síðan dalað mikið og eru nú í bullandi fallbaráttu. Keflvíkingar eiga undir öllum eðlilegum kringumstæðum að vinna auðveldan sigur í þessum leik, sem fer fram á mánudaginn, og hlýtur annað að teljast stórslys. Guðjón þjálfari býst þó við því að Þórsarar komi til leiks tilbúnir að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. „Þeir eiga ennþá séns á að bjarga sér, en að öllu eðlilegu eigum við að vinna þennan leik.“

ÍS-KEFLAVÍK/1. deild kvenna

Keflavík hefur þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn, en þær verða engu að síður að mæta reiðubúnar til þessa leiks, sem fer fram á mánudaginn. því ÍS eru þrátt fyrir allt með sterkt lið og hafa unnið Keflvíkinga tvisvar í vetur. Þá hafa ÍS bætt við sig erlendum leikmanni sem styrir liðið talsvert og eiga þær því eflaust eftir að veita harða mótspyrnu.
Hjörtur Harðarson, þjálfari bikarmeistaranna, á von á hörkuleik. „Þær eru náttúrulega komnar með Kana sem styrkir þær eitthvað, en við ætlum að vinna þennan leik því við erum að góðri siglingu og ætlum ekkert að gefa eftir núna. Við ætlum okkur alla titlana í ár og nú er sá stærsti eftir.“

Miðvikudagur:

NJARÐVÍK-KR/1. deild kvenna

Þegar að þessum leik kemur á miðvikudaginn næstkomandi verður deildin eflaust ráðin og því verður ekki fyrir neinu að berjast. KR hafa sýnt að þær eru með mjög sterkt lið en þær hafa einungis unnið 2 af síðustu sex leikjum sínum. Njarðvíkingar eru ekki með eins sterkt lið á pappírunum, en gætu strítt þeim eitthvað, enda hafa þær þegar unnið KR einu sinni í vetur.
Auður Jónsdóttir, fyrirliði Njarðvíkinga, segir að erfitt verði að ná í úrslitasætið, en ekki sé öll nótt úti enn. „Þetta er svart, en það er aldrei neitt útilokað. Þetta verður hörkuleikur og við gefum ekkert eftir. Ef við vinnum ekki verðum við samt alveg sáttar og komum bara sterkari að ári.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024