Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Fimmtudagur 12. febrúar 2004 kl. 15:26

Leikir vikunnar í körfuknattleik karla og kvenna

Næsta vika verður viðburðarík í meira lagi þar sem ein umferð fer fram í 1. deild kvenna og tvær umferðir í Intersport-deildinni:

Intersport-deildin

 

Í kvöld:

KR-GRINDAVÍK

Grindvíkingar eiga enn eftir að finna sig eftir jól þar sem þeir hafa tapað þremur af fimm deildarleikjum og misst toppsætið í hendur Snæfellinga.

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindvíkinga, segir leikinn gegn KR vera mjög krefjandi verkefni. „Þeir hafa verið mjög sterkir að undanförnu og duttu í lukkupottinn með Kanann sem þeir fengu eftir áramót og hefur verið alveg óstöðvandi. Þannig að við þurfum að hafa okkur alla við. Páll Axel er að koma aftur eftir meiðsli og verður vonandi klár í slaginn og það skiptir miklu máli fyrir okkur.“

 

ÍR-NJARÐVÍK

Njarðvíkingar hafa haft góðan tíma til að ná sér eftir tapið í bikarúrslitunum um síðustu helgi og þurfa að fara að einbeita sér að deildinni þar sem þeir hafa slegið slöku við í síðustu leikjum. Í kvöld mæta þeir ÍR-ingum sem hafa hins vegar staðið sig með mikilli prýði eftir áramót þar sem þeir hafa unnið 4 leiki en bara tapað einum sem var gegn Keflavík í Sláturhúsinu. Þar með hafa þeir híft sig upp af botni deildarinnar og eru komnir með gott forskot á Breiðablik, KFÍ og Þór.

Friðrik Ragnarsson, þjálfari, segir sína menn vera búna að sleikja sárin síðan í bikarúrslitunum en nú sé kominn tími á að bíta á jaxlinn. „ÍR eru orðnir mjög sterkir og við verðum að ná sigri í þessum leik. Við megum alls ekki við tapi.“

 

Á morgun:

KEFLAVÍK-KFÍ

Nýkrýndir bikarmeistarar Keflavíkur fá KFÍ í heimsókn á morgun og er næsta auðvelt að lofa öruggum heimasigri þar sem ekkert íslenskt lið hefur sótt stig til Keflavíkur í rúmlega 30 leiki. Þá eru Ísfirðingar ekki manna líklegastir til að breyta út af þeim vana þar sem þeir hafa verið við botn deildarinnar í allan vetur.

Falur Harðarson, annar þjálfara Keflavíkur, segir stemmninguna góða í hópnum, en nú ríði á að ná upp baráttunni eftir bikarsigurinn. „Það er oft erfitt eftir úrslitaleiki að ná upp andanum, en við höfum sett okkur það markmið að vinna alla leiki sem eftir eru, en munum taka einn leik fyrir í einu.“

 

Sunnudagur:

NJARÐVÍK-BREIÐABLIK

Njarðvíkingar ættu ekki að þurfa að hafa mikið fyrir þessum sigri þar sem Blikarnir hafa ekki verið að gera miklar rósir að undanförnu og hafa aðeins unnið tvo af síðustu tíu leikjum sínum sem voru gegn botnliðum KFÍ og Þórs.

Friðrik þjálfari sagði þó að hann byggist ekki við auðveldum leik. „Við erum þó á heimavelli sem kemur okkur vel, en við verðum að fara að bíta frá okkur. Við erum búnir að setja okkur raunhæft markmið um að lenda í þriðja eða fjórða sæti í deildinni og treystum á að toppa í úrslitakeppninni.“

 

TINDASTÓLL-KEFLAVÍK

Á sunnudaginn fara Keflvíkingar í heimsókn á Sauðarkrók þar sem þeir mæta Tindastóli. Stólarnir hafa verið æði misjafnir í vetur þar sem þeir hafa unnið nokkra góða sigra, en dalað þess á milli. Heimavöllur Tindastóls er þó með þeim betri á landinu og þýðir því lítið að gefa sér nokkuð fyrirfram heldur verður að vinna fyrir sigrunum. Keflvíkingar setja stefnuna á að vera með sem besta stöðu fyrir úrslitakeppnina, en Falur Harðarson segir að þeir verði að stóla á sjálfa sig og vinna sína leiki þar sem ekki þýði að setja traust sitt á að öðrum liðum fatist flugið.

 

Mánudagur:

GRINDAVÍK-ÞÓR ÞORLÁKSHÖFN

Þór frá Þorlákshöfn hóf feril sinn í úrvalsdeild með látum þar sem þeir unnu fyrstu tvo leiki sína, en síðan hafa þeir tapað öllum 14 leikjum sínum og virðast dæmdir til að falla niður í fyrstu deildina á ný í vor. Grindvíkingar hafa yfirburði hvað varðar mannskap og ættu ekki að lenda í vandræðum í þessum leik.

Friðrik Ingi segir engu að síður að Þór sé andstæðingur sem þeir taki alvarlega. „Það er nú þannig í þessu að það er ekki á vísan að róa. Hvert verkefni er krefjandi og liðin hafa verið að breytast eftir áramót og þeir hafa sjálfsagt tekið framförum eftir því sem nýju mennirnir koma betur inn í liðið.“

 

1. deild kvenna

 

Í kvöld:

ÍS-NJARÐVÍK

Bæði þessi lið hafa dalað nokkuð að undanförnu þar sem ÍS hefur gefið eftir í toppslagnum fyrir Keflvíkingum og Njarðvík hefur misst fjórða sætið í hendur Grindvíkinga. Velgengni Njarðvíkinga í þessum leik sem fer fram í kvöld mun velta mikið á því hvort Andrea Gaines sé kominn í leikform aftur því án hennar verður erfitt að sækja nokkuð til ÍS, sem er þrátt fyrir allt með afar sterkt lið með góða einstaklinga innanborðs.

Jón Júlíus Árnason, þjálfari Njarðvíkurstúlkna, segir liðið koma vel undirbúið til leiksins og muni leggja áherslu á að reyna að stöðva Öldu Leif Jónsdóttur. „Ef það tekst er búið að taka heilmikið af þeim. Annars setjum við mikið traust á Andreu og ég er að vona að hún fari með sinn leik upp á næsta stig.“

 

Mánudagur:

ÍR-KEFLAVÍK

Keflavíkurstúlkur halda til Reykjavíkur á mánudaginn og munu þar etja kappi við botnlið ÍR, sem missti Eplunus Brooks frá sér nýlega, en Brooks var allt í öllu í liðinu og má teljast næsta víst að ÍR fari aftur niður um deild í vor. Keflvíkingar eru hins vegar í rymjandi formi og eru til alls líklegar þessa stundina og ættu að klára þennan leik án þess að hafa mikið fyrir því.

Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur, segist vona að stelpurnar veri komnar niður á jörðina eftir bikarsigurinn. „ÍR hefur auðvitað veikst nokkuð eftir að Kaninn fór frá þeim, en það getur allt gerst í þessu. Þær eru með baráttulið og við förum í þennan leik til að vinna og verja toppsætið.“

 

Miðvikudagur: 

NJARÐVÍK-GRINDAVÍK

Leikur Njarðvíkur og Grindavíkur á miðvikudaginn verður svo sannarlega þess virði að fylgjast með því þar eigast við liðin sem eru að berjast um fjórða sæti deildarinnar og sæti í úrslitakeppninni. Grindvíkingar hafa verið á góðri siglingu að undanförnu, en Njarðvíkingar hafa verið að dala, en eru þó sýnd veiði en ekki gefin. Vörn Grindvíkinga er föst fyrir og verður erfitt fyrir Njarðvíkurstúlkur að vinna á henni en allt verður lagt í sölurnar í þessum leik.

Jón Júlíus hjá Njarðvík á von á hörkuleik. „Grindvíkingar hafa sýnt það undanfarið að þær geta unnið alla, en ég er sannfærður um að mínar stelpur geta lagt þær að velli ef þær eru með hugarfarið á réttum stað.“

Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindvíkinga, segir bjartsýni ríkja í sínum herbúðum, en segir sigur í leiknum mjög mikilvægan. „Við ætlum okkur að tryggja okkur sæti í úrslitunum og koma inn í úrslitakeppnina á fleygiferð. Við erum með það mikið betra lið að við eigum að minna ef stelpurnar mæta til leiks með rétt hugarfar og leggja sig fram.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024