LEIFTURSSIGUR ÁN MARKS
Grindvíkingar töpuðu þremur stigum til Leifturs frá Ólafsfirði með eftirminnilegum hætti á síðustu mínútu venjulegs leiktíma eftir að hafa verið sterkari aðilinn allan tímann. Á 90 mínútu leiksins sóttu Leiftursmenn og Brasilíumaðurinn Alexander Braga de Silva náði að skalla knöttinn framhjá Alberti Sævarssyni í markinu. Boltinn hrökk í stöngina en Albert var eldfljótur og náði knettinum, að því best fékkst séð, aftur á marklínu.Virtist hættan afstaðin þegar Eyjólfur Ólafsson, dómari, dæmdi markið gilt í kjölfar ábendingar línuvarðarins Magnúsar Þórissonar. Grindvíkingum hreinlega féllust hendur og tókst ekki að rétta hlut sinn fyrir leikslok. Helgi Bogason, aðstoðarþjálfari Grindvíkinga, sagði tapið mjög sárt og ákvörðun astoðardómarans óskiljanlega. „Línuvörðurinn var í engri aðstöðu til að meta atvikið þar sem hann var illa staðsettur og menn hljóta að þurfa að vera 100% vissir til að taka svona ákvörðun.“ Grindvíkingar, sem léku án 3 fastamanna úr sóknarlínunni, voru miklu sterkara liðið í leiknum og fóru þar fremstir miðjumennirnir Sinisa Kekic og Hjálmar Hallgrímsson en framherjinn Ólafur Ingólfsson hefur séð léttari daga. Hlynur Birgisson og Alexander Braga de Silva léku best gestanna en Guðjón Ásmundsson tók Une Arge grettistaki frá fyrstu mínútu og átti Færeyingurinn sterki sér ekki viðreisnar von.