Leiðinlegir þessir Grindvíkingar
Íþróttaárið 2013: Lovísa Falsdóttir gerir upp árið
Skyttan Lovísa Falsdóttir átti frábært ár sem var að líða enda vann hún til fjölda verðlauna með sigursælu Keflavíkurliði í körfuboltanum. Tímabil þeirra Keflvíkinga var nánast fullkomið en eftir velgengnina ákváðu burðarásar að segja skilið við liðið, Lovísa segir það hafa verið vægt áfall að sjá á eftir góðum félögum í annað lið. Lovísa fór yfir íþróttaárið 2013 á Suðurnejum.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2013 á Suðurnesjum?
„Það sem stóð mest uppúr voru titlarnir hjá okkur stelpunum, áttum nánast fullkomið tímabil! Svo þótti mér sérstaklega gaman að sjá Gunnar frænda tryggja sigurinn á lokasekúndunum á móti Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni í október. Grindavíkurlið karla var líka flott á endasprettinum í úrslitakeppninni, eiga hrós skilið fyrir að vinna titilinn annað árið í röð.“
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
„Blóðtakan í kvennaliðinu okkar var smá sjokk, að missa Pálínu og Ingibjörgu yfir í Grindavík. Það var líka mjög súrt þegar Grindvíkingarnir slógu strákana okkar í Keflavík út úr bikarnum, leiðinlegir þessir Grindvíkingar.“
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
„Svo ég tali nú ekki bara um körfubolta þá fannst mér rosalega gaman að fylgjast með ungu strákunum í fótboltaliðinu okkar í sumar, Arnóri Ingva og Elíasi þá helst. En í körfunni þá voru Pálína María og Elvar Már langflottust af öllum á Suðurnesjum. Bæði með svakalega leiðtogahæfileika á sínum grundvelli. Þau eru týpurnar sem maður elskar að spila með en hatar að spila á móti.“
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
„Ég fór allavega oftar en vanalega á völlinn í sumar að sjá fótboltaliðið í Keflavík. Það var gaman að fylgjast með þeim í sumar, að bjarga sér frá falli.“
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
„Bara prýðilega eins og alltaf. Sé fyrir mér að ný nöfn hjá efnilegum einstaklingum á ýmsum sviðum munu festast betur í minnum fólks. Hlakka þó mest til að sjá Gunnar Ólafsson og Elvar Má berjast inni á vellinum næsta haust, þá ekki um Reykjanesbæ heldur um Brooklyn, NY!“