Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Leiðarljós liðsins heillaði
Þriðjudagur 24. ágúst 2010 kl. 17:15

Leiðarljós liðsins heillaði

-sundþjálfarinn Antony Ketter var í leit að nýjum áskorunum þegar honum bauðst að koma til Íslands að þjálfa ÍRB.


„Ég sá auglýsingu snemma á þessu ári á vefsíðu ástralska sundþjálfara- og sundkennarasambandsins. Ég var á þeim tíma að leita að nýjum áskorunum en vissi í raun ekkert um Ísland sem land, hvað þá sundlífið hér.  Svo ég fór að kanna og skoða landið og allt í kringum sundið hérna. Það sem heillaði mig fyrst og fremst var leiðarljós liðsins ÍRB, sem var mikil einurð og vilji til að vinna að markmiðum liðsins,“ segir Antony Ketter, nýráðinn sundþjálfari ÍRB þegar hann var inntur eftir því hvað það var sem dró hann hingað til Íslands.

Aðstaða á heimsmælikvarða


Antony átti í viðræðum við forsvarsmenn ÍRB um tíma sem leiddi til þess að hann ákvað að fljúga hingað frá Nýja-Sjálandi til að skoða aðstæður.
„Aðstaðan sem sundlið ÍRB hefur aðgang að er á heimsmælikvarða. Mér fannst mikið til hennar koma. Þjálfarar liðsins eru mjög hæfir og frábært fólk.  Það var tekið mjög vel á móti mér og ég fór og skoðaði aðeins landið, sá Gullfoss og Geysi, áður en ég fór í grillveislu í sumarbústað til einnar fjölskyldunnar.  Að lokum var það gott samspil allra þátta; vinnusemi sundmannanna í lauginni studd af frábærum liðsanda og hjálpsömum foreldrum, sem gerðu ákvörðunina um að koma hingað auðvelda,“ segir Antony.

Þjálfaði í Hong Kong og Nýja-Sjálandi

Áður en Antony kom hingað vann hann í Hong Kong með sundfélagi við alþjóðlegan skóla. Hann segir búsetuna í Hong Kong hafa verið mjög lærdómsríka. Stefna liðsins hafi hins vegar ekki verið nógu framsækin fyrir þann metnað sem hann hafi sem sundþjálfari.
„Það sem ég lærði í Hong Kong sem þjálfari er að það er hægt að ná frábærum árangri þó svo maður hafi lítinn tíma í lauginni.  Sundmenn þurfa alltaf að sýna mikinn aga og örva hugann öllum stundum. Þetta verður mjög mikilvægt hér hjá ÍRB. Þjálfun getur verið mjög erfið sundmönnum andlega þrátt fyrir minni tíma í lauginni en þau eru vön,“ segir Antony.
Áður en Antony fór til Hong Kong þjálfaði hann hjá félagi sem heitir The North Shore Swimming Club og er í Auckland á Nýja-Sjálandi.  Það félag er að mörgu leyti mjög líkt ÍRB, segir Antony,  mjög góð aðstaða, dyggir þjálfarar, foreldrar studdu vel við bakið á félaginu og sundmönnum og sundmenn voru tilbúnir að leggja sig alla fram um að ná sem bestum árangri.  North Shore liðið er búið að vera í fremstu röð sundliða á Nýja-Sjálandi í yfir áratug. Þar varð hann yfirþjálfari með yfirumsjón yfir 200 sundmönnum og 12 þjálfurum. Antony hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín í Auckland. Meðfram störfum sínum kláraði hann tvær háskólagráður frá Tækniháskólanum í Auckland sem hann segir hafa nýst sér mjög vel við stjórn stórra sundfélaga.
„Þegar ég kom að þjálfun hjá North Shore var liðið enn fremst í flokki á landsvísu með 13 ólympíufara í liðinu en því miður var engin þróun í gangi og engir nýir sundmenn af þessum styrkleika voru að koma til að halda við þessu góða gengi. Ég hef verið mjög heppinn að fá að vinna með mjög færu fólki á sínu sviði en einnig hef ég orðið fyrir áhrifum frá fyrirlesurum úr náminu og á alþjóðlegum ráðstefnum sem ég hef sótt. Ég hlakka til að vinna með öllum þeim færu þjálfurum sem við höfum hér hjá ÍRB og ég veit að ég mun læra mjög mikið hérna eins og annars staðar en einnig mun ég vonandi kenna þeim eitthvað af því sem ég hef lært síðasta áratug,“ segir Antony.

Allt er til staðar

„ÍRB hefur ótrúlega möguleika og hefur mikið af frambærilegum sundmönnum.  Allt er til staðar til að við verðum enn betra lið,“ svarar Antony þegar hann er spurður að því hvernig honum lítist á ÍRB við fyrstu kynni.
„Sundmennirnir vöktu hrifningu mína með vinnusemi sinni á Spáni, þar sem við vorum við æfingar á Benidorm.  Það var meiriháttar tækifæri fyrir mig að kynnast sundmönnunum og foreldrahópnum vel áður en við keyrðum nýtt tímabil í gang.  Fararstjórar í ferðinni unnu frábæra vinnu og það var áhugavert að sjá hvernig þeir, sem foreldrar, brugðust við mismunandi æfingaaðferðum sem ég bauð upp á.  Það var mjög jákvætt og styrkti mig í þeirri skoðun að ég hefði tekið rétta ákvörðun að koma til Íslands.
Ég hlakka mikið til að taka þátt í fullskipuðu æfingaprógrammi, sem hefst eftir u.þ.b. viku, og virkilega koma æfingaplaninu í gang ásamt því að innleiða nýjar áherslur,“ segir Antony.

Bara spurning um tíma

„Við munum setja markið á Íslandsmeistaramótin, vonandi halda áfram árangri okkar í lauginni þar, og halda áfram að vera leiðandi sundlið á Íslandi.  Við höfum einnig þó nokkra sundmenn sem setja markið á hátinda á alþjóðlegum vettvangi og alþjóðlegar keppnir fyrir unglinga á næstu árum. Stuðningsnet sundmanna, sem við viljum koma á laggirnar, hjálpa þessum sundmönnum að verða framúrskarandi hér á Íslandi þegar við höfum komið því í gang. Ávinningurinn af slíku neti er að við getum nálgast sund frá öllum sjónarhornum og gengið úr skugga um að við séum að líta eftir öllum þáttum sundsins og taka tillit til þeirra.
Langtímamarkmið okkar er að það verði litið til okkar á Íslandi fyrir dugnað og yfirburði.  Þó svo að þetta muni taka tíma, þá höfum við fólkið, fjölskyldurnar og sundmennina til að gera þetta, svo með það í huga þá er þetta bara spurning um tíma.
Við munum beina sjónum til sundmanna okkar erlendis, til að hækka standardinn í sundinu hjá ÍRB.  Ísland er lítil þjóð, svo við verðum að horfa á árangur á heimsvísu, og við verðum að byrja á því núna,“ sagði Antony Ketter að lokum.

Efsta mynd: Antony á sundlaugarbakkanum á æfingu hjá ÍRB. VFmynd/elg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tekið á því í lauginni. VFmynd/elg.

 Antony Ketter á æfingu hjá ÍRB. VFmynd/elg.



Simmetría í sundlauginni. VFmynd/elg.