„Legg mikla áherslu á varnarleikinn“
-segir Reggie Dupree í spjalli við Víkurfréttir
Reggie Dupree, leikmaður Keflavíkur í Domino’s deild karla í körfubolta, hefur verið lykilmaður í liðinu það sem af er tímabili og hefur sérstaklega vakið athygli fyrir frábæran varnarleik. Það leynir sér ekki að hann er í fantaformi, enda harðduglegur við aukaæfingar. Hann leggur sig einnig fram við að vera yngri leikmönnum liðsins góð fyrirmynd.
Þú hefur þurft að sanna þig til að fá meiri spilatíma hjá Keflavík. Hvernig gerðirðu það?
Ég horfi alltaf til framtíðar og æfi eins vel og ég get. Ég fer ekki allt í einu að mæta oftar í ræktina og skjóta aukalega til að sanna mig heldur geri ég það alltaf. Ég sé þetta þannig að þú vinnur þér inn virðingu liðsfélaga þinna og traust þjálfara þíns. Þegar þú hefur gert það, þá ganga hlutirnir upp.
Hvernig líkar þér að gegna stærra hlutverki í liðinu með hverju tímabili sem líður?
Ég kann vel við það. Það er gaman þegar fólk hefur trú á manni og heldur að maður geti hjálpað liðinu og haft áhrif. Ég tek sökina á mig ef illa gengur en þegar vel gengur þá er það liðsheildinni að þakka.
Er mikilvægt fyrir þig að vera leiðtogi, bæði innan og utan vallar?
Já, mér finnst það mikilvægt, ekki fyrir þá eldri í liðinu heldur ungu leikmennina. Ég vil sýna gott fordæmi og vona að þeir geti lært af manni. Ef ég legg alltaf hart af mér þá þarf ég ekki að segja þeim að gera það líka, þeir sjá það og hugsa að þeir verði líka að leggja hart af sér.
Þú tekur stundum liðsfélagana tali inni á vellinum. Geturðu sagt frá því?
Stundum sé ég að menn eru orðnir heitir í skapinu eða þá að við erum undir í leiknum, þá segi ég þeim að þetta sé allt í góðu lagi, þetta sé maraþon, ekki spretthlaup og við þurfum bara að halda áfram að spila okkar leik. Þetta var gert við mig og ég fann að þetta hjálpaði mér, svo ég geri þetta til að hjálpa öðrum.
Hvað leggur þú upp með í hverjum leik?
Að bæta það sem betur hefði mátt fara í síðasta leik og svo legg ég mikla áherslu á vörnina. Hver sem er getur skorað, hver sem er getur skotið en það sem er erfitt er að stöðva andstæðinginn. Svo ég einbeiti mér mjög að varnarleiknum.
Ert þú og liðið þitt með markmið fyrir tímabilið?
Já við settum okkur markmið í upphafi tímabils og það er einfaldlega að vera eins góðir og við getum verið. Við getum ekki efast um okkur eða verið ósáttir með okkar frammistöðu í lok tímabils ef við vitum sjálfir að við gerðum eins vel og við gátum og spiluðum okkar besta leik.
Hvernig er liðsandinn?
Hann er góður. Undanfarin ár höfum við alltaf verið með nýtt lið en nú höfum við spilað saman í tvö ár og erum farnir að þekkja vel inn á hvern annan. Samskiptin okkar á milli eru góð og sömuleiðis mórallinn. Það er mjög gott.