Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Launamál körfuboltadómara valda ólgu
Miðvikudagur 26. október 2011 kl. 11:46

Launamál körfuboltadómara valda ólgu

Körfuknattleiksunnandinn og Keflvíkingurinn Tómas Tómasson, hefur ritað pistil á vefsíðuna karfan.is sem vakið hefur mikla athygli. Í pistlinum fjallar Tómas um launamál dómara í körfubolta en nýlega fékk sú stétt 25% launahækkun.

Hér að neðan má lesa áhugaverðan pistil Tómasar:

Síðastliðin ár hafa verið okkur Íslendingum erfið. Kreppan hefur svo sannarlega bitið flesta duglega í rassinn á einn eða annan máta . Verðlag hefur rokið upp sem og lánin okkar .Í kjölfarið hefur kaupmátturinn rýrnað gífurlega, þar sem Kaupið hefur að mestu setið á hakanum. Þessu er þó ekki fyrir að fara hjá öllum stéttum landsins. Nú nýlega voru körfuboltadómarar að fá launahækkun uppá 25%.
Ég verð að viðurkenna að mig rak í rogastans við að sjá þessa frétt. Eftir að hafa melt hana og kyngt með semingi og erfiðismunum, fann ég fyrir mikilli reiði. Sjálfur hef ég verið viðloðandi körfubolta í rúm 25 ár og þekki því ágætlega til rekstur körfuboltadeilda. Ég fullyrði að síðustu 2-3 ár hafa verið þau erfiðustu í rekstri deildanna frá upphafi. Fyrirtækin sem hafa verið aðal stuðningsaðilliar körfuboltafélaganna hafa flest fullt í fangi með að halda sér á floti, þau sem ekki eru í gjörgæslu eða gjaldþrota og því vart aflögufær til að styrkja við góð málefni.

Félögin hafa flest skorið gífurlega niður í launakostnaði leikmanna sem og þjálfara. Erlendir leikmenn fá miklu lægri laun en tíðkuðust 2007 og fyrir þann tíma. Þrátt fyrir þetta dugar það vart til og taprekstur er hjá vel flestum körfuboltdeildum landsins og ærið verkefni að halda sjó.
Á meðan að sultarólin er hert til hins ítrasta hjá félögunum fá dómarar 25% launahækkun. Það er eitthvað stórkostlega mikið að í körfuboltamálum landsins þegar svona hlutir gerast. Dómarar eru auðvitað hluti af leiknum og nauðsynlegir til þess að allt fari vel fram. En hversvegna að hækka laun þeirra á meðan allir hnífar eru á lofti hjá deildunum við það að skera niður kostnað?

Svona taktleysi er gjörsamlega óþolandi og körfuboltahreyfingunni sem og gráðugum dómurum til skammar. Gleymum því ekki að þegar kreppan skall á fóru skyndilega að dúkka upp dómarar sem löngu voru búnir að leggja flautunni og komnir í líkamlegt ástand sem tengist íþróttum á engan máta. Ég leyfi mér að stórefa það að ástin á körfuboltanum hafi verið það sem dró þessa einstaklinga aftur á körfuboltavöllinn.


Metnaðurinn hjá dómaraelítunni sem stendur skjaldborg og vörð utan um sjálfa sig virðist ekki ýkja mikill þegar menn geta valsað þar inn og út eftir langan dvala frá störfum rétt til þess að krúnka út fé. Getan eða hæfileikar til verksins virðast ekki vera aðal áhyggjuefnið þar á bæ. Á s.l. ári var körfuboltadómari í Iceland Express deildinni með rúmar 1.800.000. kr í tekjur á tímabilinu. Ég stórefa að nokkur leikmaður í Iceland Express deildinni hafi hlotið svo góð launakjör s.l. tímabil. Hvar í heiminum gæti svona rugl og vitleysa átt sér stað ? Það að dómarar séu launhæstu menn á íþróttavellinum fær mann til að að hugsa sig um.


Er ekki löngu kominn tími til að KKÍ taki af skarið og skerist í leikinn? Er ekki kominn tími til að menn utan stéttarinnar fari með gæðaeftirlitið, ( t.d. fyrrum leikmenn í bland við eldri dómara) og dæmi um hæfi þeirra til starfans? Ég skora á dómara landsins að líta í eigin barm og spyrja sig. Hversu mikið þeir elska körfubolta. Sé svarið mikið, þá ættuð þið að heimta launalækkun uppá 50% og þakka fyrir að vera hluti af leik, sem er sá besti í heimi. Sé það hinsvegar fjárþörfin sem ræður för, bið ég ykkur vinsamlega að róa á önnur mið því körfuboltinn er ekki vettvangur fyrir peningasafnara, a.m.k ekki sá íslenski.

Mikið held ég að stjórnarmönnum og sjálboðaliðum sem starfa kauplaust fyrir körfuboltafélögin útum allt land, af hreinum og einskærum áhuga svíði þessi gjörningur, enda fullkomlega á skjön við ástandið sem ríkir í þjóðfélaginu. Það þarf að opna fyrir þessa umræðu þannig að allir sem að málinu koma séu á sömu blaðsíðu og dansi í takt við tónlistina sem spiluð er hverju sinni, annars er ekki von á góðu.

Myndir: Efst er mynd úr leik Keflavíkur og KR og á neðri mynd má sjá Tómas vinstra megin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024