Látum FH finna vel fyrir því
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var þokkalega sáttur við stigið sem Keflvíkingar nældu sér í gegn KR í gær. Lokatölur leiksins voru 2-2 þar sem Þórarinn Kristjánsson gerði jöfnunarmarkið fyrir Keflavík.
Tvo lykilmenn vantaði í Keflavíkurliðið í gær. Þá Guðmund Viðar Mete og Baldur Sigurðsson. „Niðurstaðan úr leiknum er þokkaleg með það í huga,“ sagði Kristján um fjarveru Baldurs og Guðmundar. „Þeir sem komu inn í liðið stóðu sig fínt,“ sagði Kristján en Hallgrímur Jónasson fór í miðvarðarstöðuna með Kennteh Gustafsson. Magnús Þorsteinsson fór í framlínuna með Guðmundi Steinarssyni og Stefán Örn Arnarson leysti Baldur af á miðjunni.
„Seinustu 20 mínúturnar í fyrri hálfleik duttum við alveg niður og hættum að hlaupa, hættum að spila og hleyptum KR inn í leikinn. Byrjun síðari hálfleiks var óþægileg en það var gott hjá strákunum að vinna sig aftur inn í leikinn,“ sagði Kristján.
Næsti leikur Keflvíkinga verður gegn toppliði FH á Keflavíkurvelli sunudaginn 20. ágúst. „Við ætlum að láta FH-inga finna vel fyrir því og við munum æfa vel í landsleikjahléinu. Markmiðið er sigur gegn FH á heimavelli,“ sagði Kristján að lokum.
Fyrri leik Keflavíkur og FH í Landsbankadeildinni lauk með 2-1 sigri FH þar sem Keflvíkingar fyrirgerðu tveimur vítaspyrnum.