Langþráður sigur Keflvíkinga
Keflvíkingar sigruðu Framara 1-0 í kvöld í baráttuslag í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á heimavelli. Þrír ungir strákar voru settir í byrjunarliðið hjá Keflavík en meiðsli hafa verið að hrjá liðið að undanförnu. Þeir Bojan Stéfan Ljubicic, Viktor Smári Hafsteinsson og Arnór Ingvi Traustason komu ferskir inn og skoraði Arnór m.a sigurmark leiksins.
Framarar sem eru á botni deildarinnar með tvö stig byrjuðu leikinn af krafti og Keflvíkingar máttu að mörgu leiti þakka Ómari Jóhannssyni markverði fyrir að vera ekki komnir undir snemma í fyrri hálfleik. Arnar Gunnlaugsson sem hefur verið driffjöðurin í leik Fram á tímabilinu yfirgaf leikvöllinn eftir hálftíma leik og við það dafnaði spil þeirra Framara. Markalaust var í leikhlé og Keflvíkingar ekki beint líklegir til að skora.
Willum þjálfari Keflvíkinga hefur sjálfsagt gefið leikmönnum sínum appelsínur í hálfleik því það var allt annað að sjá til Keflavíkurliðsins í upphafi síðari hálfleiks og þeir virkuðu loks beittir fram á við. Eftir rúmar 50 mínútur barst boltinn til Arnórs Ingva eftir klafs í vörn Framara og Arnór hikaði ekki og afgreiddi boltann vel í netið. Leikurinn einkenndist af baráttu og ekki var fallegur fótbolti á boðstólnum á Nettó-vellinum í kvöld.
Þegar flautað var til leiksloka var augljóst að leikmönnum Keflavíkur var talsvert létt enda langt síðan síðustu stig komu í hús.
[email protected]