Landsmót UMFÍ 50+ verður í Vogum árið 2024
„Við erum gríðarlega stolt og hamingjusöm yfir því að okkur er treyst fyrir þessu stóra verkefni,“ segir Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar í Vogum en stjórn UMFÍ ákvað á fundi sínum á föstudag að úthluta Landsmóti UMFÍ 50+ til Þróttar árið 2024.
Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og annarri hreyfingu fyrir fólk á miðjum aldri, fimmtugu og eldra.
Mótið hefur verið haldið árlega frá 2011. Eins og á öðrum viðburðum UMFÍ er engin krafa um að þátttakendur þurfi að vera skráðir í ungmenna- og íþróttafélag. Þeir taka allir þátt á eigin forsendum.
Þetta verður fyrsta skiptið sem mótið verður haldið í Vogum.
Myndin hér að ofan var tekin þegar móta- og viðburðanefnd UMFÍ heimsótti stjórn og starfsfólk Þróttar á dögunum og skoðaði aðstæður. Á myndinni eru fulltrúar Þróttar, ásamt Gunnari Axel Axelssyni bæjarstjóra í Vogum og Guðmundi Stefáni Gunnarssyni, íþrótta- og tómstundafulltrúa í Vogum. Önnur á myndinni eru Sólrún Ósk Árnadóttir og Bergur Álfþórsson, sem sæti eiga í stjórn Þróttar auk Petru Ruthar Rúnarsdóttur, formanni Þróttar. Við hlið Petru er Gissur Jónsson, sem situr í stjórn UMFÍ og er í móta- og viðburðanefnd UMFÍ, og Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ. Fyrir framan Gissur eru þær Ragnheiður Högnadóttir og Málfríður Sigurhansdóttir, sem sitja báðar í stjórnum UMFÍ og móta- og viðburðanefnd.
Marteinn tók myndina.
Hampa Landsmóti UMFÍ 50+
Marteinn segir stjórn, sjálfboðaliða og raunar alla íbúa Voga munu leggja mikið á sig, halda gott Landsmót og ætli að nýta hvert tækifæri til að hampa mótinu.
„Við ætlum að halda viðburð þar sem við fögnum því að Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Vogunum á næsta ári enda gefst þar tækifæri til að vekja athygli á lýðheilsu og möguleikunum í sveitarfélaginu,“ segir Marteinn og bætir við að sendinefnd frá Þrótti muni fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ þegar það verður haldið í Stykkishólmi í lok júní.
Mót fyrir alla
Búist er við miklum fjölda þátttakenda á Landsmót UMFÍ 50+ í Stykkishólmi. Það verður haldið dagana 23. - 25. júní. Á sama tíma fara fram Danskir dagar í bænum og fjölmenna þá brottfluttir aftur heim.