Landsliðið í körfu leikur í kvöld
Næstu tvær helgar mun A landslið karla leika tvo af fjórum leikjum sínum í A riðli B deildar Evrópukeppni karla.
Fyrir þetta keppnistímabil ákvað FIBA-Europe að breyta fyrirkomulagi Evrópukeppni landsliða, leikið skyldi í A og B deild, þar sem deildaskipting byggði á samandregnum árangri og þátttöku aðildarþjóðanna.síðastliðin 10 ár. Þau ríki sem tryggja sér þátttökurétt í gegnum Heimsmeistaramót og Ólympíuleika (að þessu sinni fimm þjóðir frá Evrópu) komast beint í úrslitakeppni A-deildarinnar, sem að þessu sinni verður haldin í Belgrad í Serbíu árið 2005 en 19 næstu þjóðirnar hlutu rétt til að leika í A deild um önnur laus sæti þar. Öðrum þjóðum var skipt í riðla í B deild, þar sem að þessu sinni voru 16 þjóðir skráðar til leiks. Var þeim skipt í fjóra fjögurra liða riðla og er leikið heima og heima í september 2004 og 2005. Efstu þjóðir í hverjum riðli leika svo sérstaka úrslitaleiki um tvö laus sæti í A deild í næstu keppni.
Ísland dróst í riðil með Dönum, Rúmenum og Azerbaijunum. Azerbaijanar drógu lið sitt úr keppni nú á haustdögum svo aðeins 3 þjóðir leika í riðlinum. Í kvöld leikur Ísland gegn Dönum í Århus og sunnudaginn 19. september heimsækja Rúmenar okkur og verður leikið í Keflavík kl. 16.00.
Íslenska landsliðið hefur æft vel í allt sumar undir stjórn Sigurðar Ingimundarsonar og Friðriks Ragnarssonar og meðal annars leikið 10 vináttulandsleiki. Belgar og Pólverjar léku þrjá leiki hvort lið á Íslandi og náði Ísland einum sigri gegn hvorri þjóð sem telst ágætur árangur þegar haft er í huga að báðar þjóðirnar eru í A-deild. Auk þess tók landsliðið þátt í Pannon Cup í Ungverjalandi fyrir skömmu og vann þar sigur á Austurríki, en tapaði gegn heimamönnum og Pólverjum. Íslenska landsliðið er í góðu formi um þessar mundir og ljóst er að helsta stjarna liðsins, Jón Arnór Stefánsson, mun taka þátt í báðum Evrópuleikjunum. Auk hans eru í liðinu að þessu sinni þeir Jakob Sigurðarson (Birmingham Southern), Magnús Gunnarsson, Jón N Hafsteinsson og Arnar Freyr Jónsson frá Keflavík, Hlynur Bæringsson og Sigurður Þorvaldsson frá Snæfelli, Páll Kristinsson og Friðrik Stefánsson frá Njarðvík, Eiríkur Önundarson frá ÍR, Páll Axel Vilbergsson frá Grindavík, Fannar Ólafsson frá Ase Dukas í Grikklandi og Helgi Magnússon frá Catawba háskólanum í Bandaríkjunum.
Ísland vs. Danmörk
Leikur Íslendinga og Dana í kvöld verður 42. viðureign liðanna. Fyrsti landsleikur Íslendinga var einmitt gegn Dönum í Kaupmannahöfn í maí 1959, þann leik sigruðu Danir með 3 stigum, 41-38. Íslendingar hafa þó sigrað oftar eða 22 sinnum en í síðustu 10 leikjum hafa Danir sigrað í 7. Síðast léku þjóðirnar á Norðurlandamótinu í Keflavík árið 2000 og þar sigraði Ísland 80-70.
Danir eru á fullu að undirbúa sig fyrir leikinn og léku 3 æfingaleiki í móti í Írlandi á dögunum. Leikið var gegn Írum, Englendingum og Tyrkjum. Danir töpuðu fyrsta leiknum gegn Tyrkjum en unnu svo Íra og Englendinga og enduðu í efsta sæti í mótinu. Þaðan héldu þeir svo til Finnlands þar sem þeir léku 2 leiki og töpuðu fyrri leiknum með 19 stigum en en þeim seinni með 52 stig, 122-70.
Helsta stjarna Dana er Christian Drejer en hann leikur með Barcelona og var valinn af New Jersey Nets i NBA valinu í sumar. Hann fékk þó ekki samning og mun leika á Spáni aftur í vetur, en Barcelona leikur einmitt í Euroleague. Michael Dahl Andersen leikur með Napoli í efstu deild á Ítalíu og Nicolai Iversen samdi nýlega við spænskt lið sem leikur í LEB 2. Þessir þrír leikmenn munu þó ekki leika gegn Íslendingum. Sá leikmaður sem Íslendingar kannast eflaust frekast við er þó Jesper Sørensen sem lék með KR síðasta tímabil. Nokkrir leikmenn danska liðsins leika með þýskum liðum en einn er í Finnlandi. Liðsheildin er aðalsmerki þeirra og má reikna með að þeir nýti sér hæðarmismun liðanna.
SK Århus varð danskur meistari í vor eftir að hafa sigrað Horsens IC í úrslitaeinvíginu. SK Århus skipti um nafn í sumar og heitir nú Bakken Bears sem er í raun aðeins nafn á meistaraflokk Skovbakken. Leikurinn á föstudaginn er leikinn á heimavelli Bakken Bears. Þar munu Njarðvík og ÍR taka þátt í æfingamóti síðustu helgina í september og þann 7. desember kemur Keflavík og leikur við Bakken Bears í Evrópubikarnum. Flemming Stie sem lék með Tindastól um árið er aðstoðarþjálfari Bakken Bears.
Hópur Íslendinga býr í Danmörku og er vitað til að einhver hópur mun mæta og hvetja Ísland.
Í könnun á danskri körfuknattleikssíðu spá 71% Dönum sigri og almennt á dönskum spjallsvæðum reiknar fólk með öruggum sigri. Þar tala menn um að greinilegt sé að Danir ætli að nota hæðina gegn smávöxnu íslensku liði!
Leikurinn verður sýndur seinna í kvöld á dönsku stöðinni 4 sport og svo á morgun á DK4.
Ísland vs. Rúmenía
Rúmenar eru ekki eins þekkt stærð í íslenskum körfuknattleik. Íslendingar hafa þrisvar att kappi við Rúmena og alltaf á erlendri grundu en þó aldrei í Rúmeníu! Fyrstu tvo leikina sigruðu Rúmenar en Íslendingar sigruðu í Spisska Nova Ves í Slóveníu en sá leikur var liður í undankeppni EM. Keppt var um að fá að leika í riðlakeppninni sem Ísland hafði leikið í tímabilið á undan og komust þrjár efstu þjóðirnar áfram. Síðasti leikurinn í riðlinum var gegn Rúmeníu og var það úrslitaleikur um hvort liðið kæmis áfram. Íslendingar sigruðu í leiknum 74-61.
Rúmenar léku í æfingamóti í Búlgaríu í ágúst ásamt heimamönnum, Króötum og Makedónum þar sem þeir töpuðu öllum leikjunum. Stigahæsti leikmaður liðsins var Virgil Stanescu, leikmaður Turk Telekom í Tyrklandi, með 17 stiga að meðaltali í leikjunum þremur og Catalin Burlacu skoraði 12 stiga að meðaltali. Flestir leikmanna liðsins leika með liðum í Rúmeníu en eins og fyrr segir leikur Virgil Stanescu í Tyrklandi og Flavius Lapuste leikur í Þýskalandi. CSU Ploiesti varð rúmenskur meistari í vor eftir að hafa unnið Dinamo Búkarest í úrslitaeinvíginu. Dinamo hafði unnið alla 24 leiki sína í deildarkeppninni.
Leiknum verður sjónvarpað á RÚV.
Það má með sanni segja að möguleikar Íslands séu töluverðir í þessum riðli, liðin virðast öll áþekk og því ljóst að hver leikur verður upp á líf og dauða.
Hópurinn:
Íslenski hópurinn í leiknum í Danmörku verður þannig skipaður:
Arnar Freyr Jónsson - Keflavík - 180 cm - 21 árs - 9 leikir
Ungur leikmaður sem leikið hefur með Keflavík allan sinn feril og fór að láta að sér kveða síðastliðið tímabil. Hefur leikið með yngri landsliðum Íslands.
Eiríkur Önundarson - ÍR - 186 cm - 30 ára - 26 leikir
Einn af eldri leikmönnum liðsins og hefur orðið nokkra reynslu, hefur leikið lengst af með ÍR en hefur einnig leikið með Holbæk í Danmörku og KR. Hefur leikið með yngri landsliðum Íslands.
Fannar Ólafsson - Ase Dukas (Gri.) - 204 cm - 26 ára - 46 leikir
Er með leikreyndari mönnum liðsins. Kom úr sterkum drengjaflokki Laugdælinga og gekk til liðs við Keflavík þar sem hann hefur eflst og þroskast. Hefur leikið í Bandaríkjunum í nokkur ár en er á leið til Grikklands næsta tímabil.
Helgi Magnússon - Catawba - 198 cm - 22 ára - 26 leikir
Einn af leikmönnum hins alræmda '82 árgangs í KR sem gerði það gott og vann flest sem hægt var að vinna þar sem þeir komu. Sá árgangur gerði það líka gott fyrir Íslands hönd þar sem Helgi lék marga leiki. Hann hefur nú leikið í Bandaríkjunum í 2 tímabil.
Hlynur Bæringsson - Snæfell - 200 cm - 22 ára - 13 leikir
Annar úr '82 landsliðinu sem hefur verið að gera garðinn frægann með Snæfell og Skallagrím. Er fyrirliði Snæfells sem komst í úrslitin í vetur og lykilmaður þar.
Jakob Sigurðsson - Birmingham SU - 194 cm - 22 ára - 12 leikir
Var í '82 liði KR og landsliðsins, einn af lykilmönnum þess. Hefur leikið um nokkurt skeið í Bandaríkjunum þar sem hann er að ljúka námi í vor.
Jón N. Hafsteinsson - Keflavík - 199 cm - 23 ára - 28 leikir
Hefur leikið með Keflavík allan sinn feril og skipað þar stórt hlutverk síðastliðin ár.
Páll Kristinsson - Njarðvík - 202 cm - 28 ára - 52 leikir
Einn af leikreyndari mönnum liðsins. Hefur leikið með Njarðvík allan sinn feril auk þess að hafa leikið marga landsleiki með yngri liðum Íslands en hann lék með hinu sterka '76 liði sem ná hefur lengst allra íslenskra landsliða.
Jón Arnór Stefánsson - Dynamo St. Petersburg - 196 cm - 22 ára - 26 leikir
Jón Arnór þarf vart að kynna, var lykilmaður í '82 árgangnum bæði með KR og landsliðinu og hefur svo stigið hærra og hærra eftir það og var á mála hjá Dallas Mavs í NBA í fyrra en er nú kominn til Dynamo St. Petersburg þar sem hann hefur staðið sig vel í undirbúningsleikjum haustsins.
Magnús Gunnarsson - Keflavík - 184 cm - 23 ára - 22 leikir
Fæddur og uppalinn í Keflavík þar sem hann eins og sannur Keflvíkingur skýtur þriggja stiga skotum þegar þess þarf - jafnvel oftar!
Páll Axel Vilbergsson - Grindavík - 196 cm - 26 ára - 48 leikur
Einn af reynsluboltum liðsins sem hefur leikið með Grindavík lengst af síns ferils þar sem hann lék með yngri flokkum. Páll Axel lék þó um tíma í Hollandi og í Skallagrím. Páll Axel er fyrirliði liðsins.
Sigurður Þorvaldsson - Snæfell - 201 cm - 24 ára - 18 leikir
Borgfirðingur sem lék með ÍR ingum í yngri flokkum og framan af í meistaraflokki en söðlaði um fyrir síðasta tímabil þegar hann skipti í Snæfell og tók þátt í velgengi þeirra síðastliðinn vetur.
Sigurður Ingimundarson þjálfari
Lék með Keflavík á sínum leikmannsferli og tók svo við þjálfun liðsins þar sem árangurinn hefur verið frábær. Var í fríi frá þjálfun félagsliðs síðastliðinn vetur en er tekinn við Keflavíkurliðinu aftur.
Myndir og texti frá KKÍ, nema fyrsta myndin: VF-mynd Jón Björn