Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Landsbankahlaupið endurvakið
Mánudagur 30. apríl 2007 kl. 10:59

Landsbankahlaupið endurvakið

Í tilefni 120 ára afmælis Landsbankans verður hið sögufræga Landsbankahlaup endurvakið laugardaginn 5. maí. Hlaupið verður haldið með samræmdu sniði um allt land þ.e. á einum stað á höfuðborgarsvæðinu, í Laugardalnum og við 21 útibú bankans á landsbyggðinni. Öll börn á aldrinum 10-13 ára tekið þátt í hlaupinu, hvar sem er á landinu. Skráning fer fram á klassi.is og í útibúum Landsbankans. Síðasti skráningardagur er 3. maí.

Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverjum riðli auk þess sem allir þátttakendur fá medalíu. Að hlaupi loknu verður haldin fjölskylduhátíð á hverjum stað þar sem m.a. verður boðið upp á grillaðar pylsur, drykki, létta leiki og gjafir fyrir hlaupara og systkini. Sem dæmi má nefna að á Laugardalsvellinum mun Felix Bergsson halda utan um dagskrá dagsins og Bjarni töframaður verður leikjastjóri.

Landsbankahlaupið var fyrst haldið á 100 ára afmæli bankans árið 1986 og svo árlega eftir það í 14 ár. Muna eflaust margir eftir því en hlaupið naut alltaf mikilla vinsælda því á hverju ári hlupu nokkur þúsund börn á öllu landinu og kepptu sín á milli af mikilli alvöru. Það er því með mikilli ánægju sem við endurvekjum það aftur á táknrænan hátt en sú hugmynd var verðlaunuð í hugmyndasamkeppni sem haldin var meðal starfsmanna Landsbankans í fyrra í tengslum við afmælisárið. Það ríkir því mikil eftirvænting meðal starfsmanna og margra fyrrum hlaupara í Landsbankahlaupinu en líklegt er að börn einhverra séu með þátttökurétt núna.

Landsbankahlaupið hefur frá upphafi verið samstarfsverkefni Landsbankans og Frjálsíþróttasambands Íslands og er svo einnig nú en Frjálsíþróttasambandið annast alla tæknilega umsjón með hlaupinu. Öll framkvæmd er með svipuðu móti og á árum áður.

Hlaupið er sem fyrr segir fyrir börn á aldrinum 10-13 ára, árganga 1994, 1995, 1996 og 1997. Hlaupavegalengdirnar eru tvær þ.e. 1500 m fyrir börn fædd ´94-´95 og 1000m fyrir börn fædd ´96-´97. Skipt verður í stúlkna- og drengjaflokka.

Fyrir hlaup verður upphitun undir stjórn fagaðila á hverjum stað en fyrstu hlaupin verða ræst kl. 11.00 og fara þau fram á eftirtöldum stöðum:

Höfuðborgarsvæðið:
• Í Laugardalnum í Reykjavík

Landsbyggðin, í eða við útibú á viðkomandi stað (ekki er hlaupið við útibú á stöðum sem tilgreind eru í sviga heldur er sameiginlegt hlaup í nágrannabæjarfélagi)
• Akranes  
• Snæfellsbær, Ólafsvík (Hellissandur)  
• Grundarfjörður  
• Ísafjörður  
• Skagaströnd 
• Sauðárkrókur 
• Akureyri 
• Húsavík 
• Vopnafjörður
• Egilsstaðir (Borgarfjörður eystri)  
• Seyðisfjörður 
• Neskaupstaður 
• Fjarðarbyggð, Reyðarfjörður (Eskifjörður) 
• Fjarðarbyggð, Fáskrúðsfjörður (Stöðvarfjörður)
• Höfn í Hornafirði 
• Hvolsvöllur 
• Reykholt  
• Selfoss
• Þorlákshöfn 
• Grindavík  
• Reykjanesbær, Keflavík
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024