Landsbankadeildin: 16 ára og yngri fá frítt
Allir unglingar 16 ára og yngri fá frítt á alla leiki í Landsbankadeildinni í sumar. Það eina sem þarf að gera er að sækja sérstaka boðsmiða í útibú Landsbankans að Hafnargötu 57-59. Ekki skiptir máli hvort krakkar eru viðskiptavinir bankans eður ei. Landsbankinn veitir þessa þjónustu til að efla knattspyrnu á Íslandi og auka aðsókn á völlinn.
Boðsmiðar til barna og unglinga eru hluti af metnaðarfullu starfi Landsbankans í tengslum við knattspyrnuna á Íslandi. Landsbankinn stendur fyrir veglegri dagskrá í tengslum við Landsbankadeildina í allt sumar. Þar er fyrst að nefna að haldnar verða fjölskylduhátíðir einu sinni hjá hverju félagi í Landsbankadeildinni. Þetta er mikilvægur liður í að skapa fjölskylduvæna stemningu á vellinum og fjölga áhorfendum. Sproti verður á staðnum og glænýr Sprotahoppkastali. Birta og Bárður verða fastagestir og boðið verður upp á veitingar og svaladrykki.
Til að auka enn frekar á stemningu á leikjum í Landsbankadeildinni hafa verið framleiddir bolir í litum allra félaga og verða þeir gefnir stuðningsmönnum á leikjum í fyrstu umferðunum. Þá munu allir leikmenn í byrjunarliðum sparka boltum upp í áhorfendastúkur fyrir hvern einasta leik
Eins og fyrri ár verður einnig í gangi stuðningsmannakeppni. Í Landsbankadeild karla verður valinn stuðningsmannahópur 1.–6. umferðar, 7.–12. umferðar, 13.–18. umferðar og loks fyrir mótið í heild. Í fyrsta skipti verða einnig veitt sambærileg verðlaun fyrir Landsbankadeild kvenna. Þar verður valinn stuðningsmannahópur 1.–7. umferðar, 8.–14. umferðar og fyrir mótið í heild. Með þessu vill Landsbankinn fjölga áhorfendum á kvennaleikjum og hvetja þá til dáða. Veitt verða vegleg peningaverðlaun til þess stuðningsmannahóps sem valinn er hverju sinni, 100 þúsund krónur fyrir sigur í hverjum mótshluta fyrir sig. Einnig verða í lok móts veitt 200 þúsund króna verðlaun fyrir besta stuðningsmannahóp mótsins í heild. Peningaverðlaunin renna til yngri flokka félaganna. Í valinu verður m.a. horft til þess að stuðningur sé öflugur og samstilltur, að stuðningsmenn séu vel merktir sínu félagi og að framkoma sé prúðmannleg. Þá verður hlustað eftir stuðningssöngvum og tekið tillit til þess hvaða hópur hefur tekið mestum framförum.
Landsbankinn í Keflavík hefur einnig stutt sérstaklega kvennaknattspyrnu í Keflavík og bauð öllum á fyrsta heimaleik liðsins í vikunni gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks.
Hvers vegna gerir Landsbankinn allt þetta fyrir liðin í Landsbankadeildinni, þ.á m. Keflavík og Grindavík. Því svarar Friðgeir Magni Baldursson, útibússtjóri Landsbankans í Keflavík: „Við elskum einfaldlega fótbolta og viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að leikmenn og aðdáendur njóti skemmtunarinnar á vellinum. Við gerum þetta fyrir fótboltann og samfélagið,“ sagði Friðgeir.