Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Landfestar sem líkamsræktartæki
Sunnudagur 28. apríl 2013 kl. 10:00

Landfestar sem líkamsræktartæki

Helgina 4.-5. maí næstkomandi verða haldnar þjálfarabúðir fyrir einkaþjálfara og aðra áhugasama um þjálfun og hreysti með tveimur bandarískum gestafyrirlesurum, þeim dr. Mike Martino og Robert Linkul.  

Sem prófessor í íþrótta- og hreyfifræði hjá Georgia College, hefur Mike skapað sér nafn sem einn af fremstu fræðimönnum í faginu.  Hann er margreyndur fyrirlesari og leiðbeinandi á ráðstefnum fyrir þjálfara á stærri sem minni viðburðum innan Bandaríkjanna. Mike er einn af þeim helstu sem leitað er til í kennslu á „battling ropes system“ sem hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár. Hann lærði beint af höfundi þjálfunaraðferðarinnar, John Brookfield, og hefur Mike rannsakað notagildi og árangur af þjálfunaraðferðinni sem felur í sér að hrista kaðla á sverleika við landfestar stórra togara.

Slík þjálfunaraðferð ætti að höfða vel til fiskimannaþjóðar eins og Íslendinga. Einnig mun félagi Mikes, Robert Linkul, sem var valinn einkaþjálfari ársins 2012 hjá NSCA, kenna þjálfunaraðferð sem Íslendingum er afar hjartfólgin. Hann mun kynna hvernig hægt er að nota aflraunaæfingar fyrir almenna líkamsræktariðkendur. Robert er mikill aðdáandi aflraunaíþróttarinnar og í samtali við hann, sagðist hann vera mjög spenntur fyrir heimsókninni til upprunalands aflraunanna, eins og hann orðaði það.

Robert hefur meistaragráðu í íþróttafræði með áherslu á einkaþjálfun og er einnig handhafi tveggja skírteina frá NSCA, CSCS og CPT. Hann skrifaði bókina “Confessions of a Certified Personal Trainer” árið 2011 og er ötull greinahöfundur um einkaþjálfun í ýmiss fagtímarit og vefsíður.

Þjálfarabúðirnar eru opnar öllum sem vilja læra um sértækar þjálfunaraðferðir en einkaþjálfarar og annað fagfólk er sérstaklega hvatt til að mæta.

Allar upplýsingar um þjálfarabúðirnar eru á heimasíðu íþróttaakademíunnar www.iak.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024