Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 17. október 2003 kl. 08:48

Lærisveinar Vals Ingimundarsonar sáu ekki til sólar

Í gærkvöldi áttust Njarðvík og Skallagrímur við í Hópbílabikarkeppni karla í körfuknattleik. Gamla Njarðvíkurhetjan Valur Ingimundarson var þar mættur á gamlar slóðir með lærisveina sína en skemmst er frá að segja sáu þeir aldrei til sólar í leiknum og Njarðvíkingar unnu sannfærandi sigur 93-72. Leikurinn var lítið fyrir augað en Njarðvíkingar nýttu tækifærið og leyfðu yngri strákunum að spreyta sig meira en venjulega og stóðu þeir sig með stakri prýði. Brandon Woudstra var stigahæstur Njarðvíkinga með 25 stig en Steven Howard bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn Skallagríms og skoraði 33 stig.
Friðrik Ragnarson, þjálfari Njarðvíkur, sagði að leikurinn hafi allan tímann verið eins og leikur kattarins að músinni og hrósaði ungu strákunum fyrir góða frammistöðu, sérstaklega Helga Má Guðbjartssyni sem hann sagði hafa leikið stórvel.
Njarðvík tryggði sér þannig sæti í næstu umferð þar sem þeir unnu líka fyrri leik liðanna sem fór fram í  Borgarnesi með 106 stigum gegn 76. Á sunnudaginn mæta Njarðvíkingar KR-ingum í Intersport-deildinni og verður þar um stórleik að ræða. Friðrik sagði að þar kæmi ekkert til greina nema sigur eftir tapið gegn UMFG í fyrstu umferð og þeir myndu mæta dýrvitlausir til leiks!
Fimm aðrir leikir fóru fram í 16-liða úrslitunum í kvöld og tryggðu Hamar, Haukar, Tindastóll, ÍR og KR sér sæti í fjórðungsúrslitunum. Í kvöld lýkur 16-liða úrslitunum með leikjum Keflavíkur og Ármanns/Þróttar annars vegar og hins vegar Grindavíkur og Reynis.

Í 1. deild kvenna sigraði Grindavík lið Njarðvíkur 51-44, en leikurinn fór fram í íþróttahúsinu í Grindavík. Í liði heimamanna voru Sólveig Gunnlaugsdóttir og Petrúnella Skúladóttir atkvæðamestar með 17 stig hvor en Sólveig tók að auki 14 fráköst. Í liði gestanna var Andrea Gaines stigahæst með 24 stig og Gréta Jósepsdóttir með 12 stig. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í 1. deildinni þar sem hvort lið hefur unnið einn leik og tapað einum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024