Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kynslóð heiðruð
Jóhann Birnir Guðmundsson.
Föstudagur 22. september 2017 kl. 10:13

Kynslóð heiðruð

-Keflvíkingar heiðra ellefu knattspyrnumenn sem hafa lagt skóna á hilluna

Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur sett upp svokallaðan Heiðursleik fyrir kynslóð leikmanna sem fæddir eru á árunum 1977 til 1983 og hafa skilið eftir sig stór spor bæði í sögu keflvískrar knattspyrnu, sem og í hjörtum stuðningsmanna á undanförnum áratugum. Aldursforsetinn, Jóhann Birnir Guðmundsson, lék sinn fyrsta leik árið 1994, eða fyrir tuttugu og þremur árum. Á árunum sem fylgdu týndust hinir smátt og smátt inn í liðið og eru síðan orðnir þaulkunnugir öllum áhangendum, eftir margra ára framlag í þágu félagsins.
 
Sjaldgæft er að upp komi jafn stór hópur svo metnaðarfullra leikmanna á jafn litlu aldursbili, sem fær tækifæri í meistaraflokki á unga aldri, auk þess að endast jafn lengi í boltanum og raun ber vitni. Hópurinn fór í gegnum súrt og sætt á sögulegu tímabili sem innihélt meðal annars þrjá bikarmeistaratitla, spennuþrungna baráttu um Íslandsmeistaratitil, fall um deild, upprisu og nokkur Evrópu-ævintýri.

Hver einasti leikmannanna á leiki með yngri landsliðum Íslands og sex af þeim ellefu sem heiðraðir verða, náðu þeim árangri að leika með A-landsliðinu, auk þess sem níu þeirra léku á einhverjum tímapunkti í atvinnumennsku erlendis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jóhann Birnir spilaði sinn fyrsta leik árið 1994, þá 16 ára gamall undir stjórn Péturs Péturssonar. Árið eftir fékk Haukur Ingi sitt fyrsta tækifæri, stuttu fyrir 17 ára afmælisdag sinn, en þá voru Þorsteinn Bjarnason og Þórir Sigfússon við stjórnvölinn. Guðmundur Steinarsson var 17 ára og Þórarinn Kristjánsson aðeins 15 ára þegar þeir fengu sín fyrstu tækifæri, árið 1996, undir stjórn Kjartans Mássonar. Magnús Sverrir Þorsteinsson var 17 ára þegar hann fór fyrst inn á völl í meistaraflokksbúningi en þá voru Gunnar Oddsson og Sigurður Björgvinsson þjálfarar. Haraldur Guðmundsson kom svo á átjánda ári inn í sinn fyrsta leik á sama sumri en á þeim tímapunkti var Kjartan Másson tekinn við liðinu. Hólmar Örn Rúnarsson bættist svo við með sinn fyrsta leik árið 2000, þá 19 ára, þegar Páll Guðlaugsson þjálfaði. Leiktímabilið 2002 komu svo þeir Jónas Guðni Sævarsson, Hörður Sveinsson og Guðjón Árni Antoníusson inn í sína fyrstu leiki, allir 19 ára, auk Ómars Jóhannssonar sem þá setti upp markmannshanskana, rétt rúmlega tvítugur. Kjartan Másson var þá þjálfari liðsins.

Allir eiga leikmennirnir það sameiginlegt að hafa farið og reynt fyrir sér annars staðar, erlendis sem innanlands en eins hafa þeir líka allir snúið heim til félagsins sem ól þá upp og gaf þeim sitt fyrsta tækifæri. Níu leikmannanna hafa leikið fleiri en tíu tímabil með félaginu og Magnús Þorsteinsson, allra flest eða hvorki fleiri né færri en sautján leiktíðir. Allir leikmennirnir léku öll yngri flokka ár sín með Keflavík með tilheyrandi boltastráka- og stuðningsmannahlutverkum á leikjum meistaraflokks, utan Ómars, sem fór til Svíþjóðar á unglingsaldri og Guðjóns, sem er uppalinn í Garðinum.

Leikmennirnir, sem sumir leika enn með liðinu, munu spila gegn Úrvalsliði Baldurs Sigurðssonar á Nettóvellinum og hefst leikurinn kl. 18, sunnudaginn 24. september. Tekið verður við frjálsum framlögum á vellinum og rennur afrakstur þeirrar söfnunar til kaupa á æfingabúnaði fyrir yngri iðkendur félagsins. Mikið verður um dýrðir þennan dag, þar sem lokahóf yngri flokka félagsins fer fram fyrr um daginn, auk þess sem Keflvíkingar fagna um þessar mundir sæti karlaliðsins í Pepsi-deildinni árið 2018.

Það er Knattspyrnudeild Keflavíkur hjartans mál að sem flestir áhorfendur mæti á völlinn og þakki þessum leikmönnum fyrir áralanga samveru á Keflavíkurvelli og leggi um leið framtíðinni lið með því að styrkja yngri flokka starf félagsins með frjálsu framlagi.

Með þeim sem á að heiðra í liði spila nokkrar goðsagnir úr keflvískri knattspyrnusögu, sem flestir voru samherjar þeirra á árum áður, undir stjórn Kjartans Mássonar og Sigurðar Björgvinssonar. Mótherjarnir, Úrvalslið Baldurs Sigurðssonar verður skipað vel völdum leynigestum úr ýmsum áttum.


„Ferilskrá“ hvers og eins leikmanns:

Magnús Sverrir Þorsteinsson 1982. 277 leikir á 17 tímabilum. Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006, 7 Evrópuleikir. Lék á sínum tíma leiki með öllum yngri landsliðum Íslands.

Guðmundur Steinarsson 1979. 275 leikir á 15 tímabilum. Bikarmeistari 1997, Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006, 10 Evrópuleikir,  3 A-landsleikir. Markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 102 mörk í Íslandsmóti, bikar- og Evrópukeppnum.

Haraldur Freyr Guðmundsson 1981. 225 leikir á 14 tímabilum. Bikarmeistari 2004, 2 leikir með A-landsliði.

Jóhann Birnir Guðmundsson 1977. 203 leikir á 14 tímabilum. Bikarmeistari 1997, 8 Evrópuleikir, 8 A landsleikir.

Hólmar Örn Rúnarsson 1981. 225 leikir á 13 tímabilum. Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006. 8 Evrópuleikir. Lék með U21 landsliði.

Guðjón Árni Antoníusson 1983. 233 leikir á 13 tímabilum. Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006, 11 Evrópuleikir, 1 A-landsleikur.

Þórarinn Brynjar Kristjánsson 1980. 189 leikir á 12 tímabilum. Fagnaði tvítugsafmæli sínu með 55 leiki og lék sinn síðasta leik aðeins 28 ára gamall. Bikarmeistari 1997, Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006, 6 Evrópuleikir. Lék með öllum yngri landsliðum Íslands.

Hörður Sveinsson 1983. 214 leikir á 12 tímabilum. Bikarmeistari 2004, 6 Evrópuleikir, Markahæsti leikmaður í Evrópukeppnum í sögu Keflavíkur með 5 mörk. Lék með U21 árs landsliði Íslands.
Ómar Jóhannsson 1981. 195 leikir á 11 tímabilum. Bikarmeistari 2006, 9 Evrópuleikir, fjölmargir U21 landsleikir.

Jónas Guðni Sævarsson 1983. 143 leikir á 8 tímabilum. Bikarmeistari 2004, Bikarmeistari 2006. 10 Evrópuleikir,  7 A-landsleikir.

Haukur Ingi Guðnason 1978. 94 leikir á 6 tímabilum, auk 16 leikja sem þjálfari. Bikarmeistari 1997, 4 Evrópuleikir,  8 A-landsleikir.