Kyndilhaup í roki og rigningu
Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu og frjálsum íþróttum standa nú yfir í Reykjaneshöllinni í Reykjanesbæ. Íslandsleikar eru árlegt samstarfsverkefni Íþróttasambands fatlaðra, Special Olympics á Íslandi og Knattspyrnusambands Íslands. Umsjónaraðili leikanna 2013 er íþróttafélagið Nes á Suðurnesjum. Auk knattspyrnu verður á sama tíma keppt í víðavangshlaupi og kúluvarpi.
Í fyrsta skipti á Íslandi verður keppt alfarið eftir reglum Special Olympics, Unified football sem byggir á keppni fatlaðra og ófatlaðra leikmanna. Lið verða skipuð fjórum fötluðum og þremur ófötluðum leikmönnum, konum og körlum.
Special Olympics á Íslandi tekur nú í fyrsta skipti þátt í alþjóðlegu verkefni Special Olympics sem byggir á samstarfi við lögreglumenn. Kyndilhlaup lögreglumanna hefur verið sett upp í tengslum við Evrópu- og alþjóðaleika Special Olympics og nú mun Ísland í fyrsta skipti standa fyrir slíku hlaupi. Enska heitið er „Flame of Hope“ eða „Logi Vonarinnar“.
Lögreglumenn frá Suðurnesjum og Reykjavík hlupu í kyndilhlaupinu sem hófst við lögreglustöðina í Reykjanesbæ í roki og rigningu og endaði um hálftíma síðar við Reykjaneshöllina þar sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum tendraið eld leikanna ásamt Sigurði Guðmundssyni, sem er keppandi í knattspyrnu og kemur frá íþróttafélaginu Nes.
Þrátt fyrir vont veður tókst nokkuð vel að halda loganum í kyndlinum lifandi. Meðfylgjandi myndir voru teknar af kyndilhlaupinu nú áðan. VF-myndir: Hilmar Bragi