Kylfingurinn Siggi Jóns sjóðheitur í Leirunni
Kylfingurinn Sigurður Jónsson, úr Golfklúbbi Suðurnesja, var svo sannarlega heitur þegar hann lék í þriðjudagsmóti hjá GS í gær. Hann lék hringinn á 63 höggum eða níu höggum undir pari og var aðeins einu höggi frá því að jafna vallarmetið af gulum teigum sem er í eigu Arnar Ævars Hjartasonar úr GS frá því í fyrra.
Hringurinn var svo sannarlega frábær hjá Sigurði því hann tapaði ekki höggi og var kominn fjórum höggum undir par eftir níu holur. Hann tók væna rispu á lokaholunum og lék síðustu fimm holurnar á fimm höggum undir pari. Fyrir hringinn fékk Sigurður alls 46 punkta og mun því lækka forgjöfina nokkuð.
Örn Ævar varð í öðru sæti, sex höggum og eftir Sigurði. Ævar Pétursson og Guðmundur Rúnar Hallgrímsson deildu þriðja sætinu á 70 höggum eða tveimur höggum undir pari. Hér að neðan má sjá skorkortið hjá Sigurði sem er svo sannarlega glæsilegt.