Kylfingar flykkjast á golfvellina
Þeir golfvellir sem hafa opnað eru mikið bókaðir næstu daga þegar veðurspá er góð. Á Suðurnesjum eru Hólmsvöllur í Leiru og Kirkjubólsvöllur í Sandgerði opnir og Húsatóftavöllur í Grindavík opnar á fimmtudag. Vellirnir í Leiru og Sandgerði eru með opið á sumarflatir og nú flykkjast kylfingar í golf og eru greinilega orðnir golfþyrstir eftir erfiðan vetur og veirutíma.
Það sem vekur athygli er að hjá Golfklúbbi Suðurnesja eru 10 mínútur á milli ráshópa en 15 mínútur hjá hinum tveimur. Miðvikudag og fimmtudag 22. og 23. apríl eru nánast fullbókaðir í Leirunni en sömuleiðis í Sandgerði, Grindavík opnar á fimmtudag. Um 200 kylfingar komast þannig í golf daglega hjá GS en aðeins færri í Sandgerði og í Grindavík.
Veðurspáin er góð næstu daga sunnanlands, það er helst að nefna rigningu fyrir hádegi á laugardag en annars er útlitið gott.
Golfvellir í Bretlandi eru lokaðir á tímum Covid19 og þar furðu kylfingar sig á því hvers vegna svo þurfi að vera og benda á ýmis atriði sem hafa verið til umræðu hér á Íslandi.