Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kylfingar á Suðurnesjum fagna nýjum golfhermi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 19. febrúar 2021 kl. 11:27

Kylfingar á Suðurnesjum fagna nýjum golfhermi

„Við höfum fengið mjög góðar viðtökur og hermirinn er mikið bókaður næstu vikurnar,“ segir Margeir Vilhjálmsson, golfkennari, en um áramótin opnaði hann aðstöðu sem heitir Golfstudio, með nýjustu gerð af golfhermi í húsnæði Bílaútsölunnar á Ásbrú.

Kylfingar hafa tekið þessu framtaki fagnandi en húsnæðið er við hlið gamla „aðalhliðsins“ við Keflavíkurflugvöll. „Þetta er golfhermir af bestu gerð og hér er hægt að spila golf á mörgum af frægustu golfvöllum heims. Það er ljóst að þörfin var mikil því aðsóknin hefur farið fram úr björtustu vonum. Kylfingar hafa fjölmennt, mikið tveir til fjórir saman og taka gjarnan einn golfhring með félögunum. Það tekur frá um einni og hálfri klukkustund upp í þrjár. Hægt að leika punktakeppni eða höggleik. Þú getur líka komið einn með kylfurnar og tekið nokkrar holur eða bara slegið eins og þú sért á æfingasvæðinu. Það er tilvalið að kaupa boltakort í slíkt en það er öruggara að panta tíma,“ segir Margeir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðspurður segir Margeir að það sé gott að halda golfsveilfunni við en hermirinn sýnir fullt af upplýsingum; boltahraða, lengd, stefnu höggs og stöðuna á kylfunni eftir hvert högg. „Ég mæli þó með því að fólk njóti þess bara að spila golf. Aðstaðan er góð. Hér er líka fín púttflöt til að æfa púttin og svo hef ég góða reynslu af því að vera með golfkennslu í herminum. Það eru komnir ansi margir golfhermar á höfuðborgarsvæðinu og þetta er mjög vinsælt þar. Nú eru engir í útlöndum í golfi og eiga tíma fyrir sig á veirutímum. Við hvetjum bara kylfinga á Suðurnesjum að mæta,“ sagði Margeir Vilhjálmsson sem er einnig með kylfinga í golffimi í Sporthúsinu.

Tímapantanir í golfhermi er í síma 770-4040 eða á noona.is