Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kvenna­fótboltinn  í Grindavík á réttri leið
Laugardagur 20. maí 2023 kl. 06:08

Kvenna­fótboltinn í Grindavík á réttri leið

„Það er frábært tækifæri fyrir mig að fá að starfa við ástríðuna mína, fótbolta. Ég mun leggja mig allan fram fyrir klúbbinn minn og hlakka til að þjálfa kvenfólkið og stýra yngri flokka starfinu,“ segir Anton Ingi Rúnarsson en hann tók við þjálfun kvennaliðs Grindavíkur fyrir þetta tímabil og er einnig yfirþjálfari yngri flokkanna.

Anton æfði fótbolta á fullu og ætlaði sér eins langt og hann gæti en bróðir hans, Sigurjón, hefur fest sig í sessi sem frábær varnarmaður. Anton fann hins vegar fljótt að hæfileikar hans lægju frekar í þjálfun en sem leikmaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég ætlaði mér stóra hluti sem knattspyrnumaður, spilaði mikið og taldi mig vera á réttri leið en á fyrsta meistaraflokkstímabilinu undir stjórn Óla Stefáns Flóvents lenti ég í að togna aftan í læri og átti í basli með það og fann bara einhvern veginn að ég væri ekki að fara ná langt, ákvað því bara að setja skóna upp í hillu. Ég hef eitthvað spriklað með GG og held því eflaust eitthvað áfram en þjálfunin er bara farin að taka svo langan tíma. Ég þarf líka að vera í formi til að geta eitthvað í fótbolta og þá þarf að æfa af krafti, ég held ég hafi ekki tíma í það. Ég mun samt kíkja á eina og eina æfingu, mér finnst ofboðslega gaman í fótbolta.“

Anton datt í lukkupottinn, fékk að vera Jóni Óla Daníelssyni til aðstoðar með kvennaliðið og þegar Jón Óli sneri til annarra starfa var nokkuð borðleggjandi hver tæki við. „Ég kom inn með Jóni Óla á miðju sumri 2021 og var svo með honum allt síðasta ár. Þetta var í raun frábært tækifæri fyrir mig því ég tel Jón Óla vera einn ef ekki besta kvennaþjálfara á Íslandi. Hann er mjög lausnarmiðaður, er með lausnir á raun öllu. Ég er sannfærður um að ef Jóni Óli væri skákmaður væri hann frábær í því. Hann er alltaf með nokkra leiki hugsaða fram í tímann. Ég lærði ótrúlega mikið af honum, í raun á öllum sviðum. Jón Óli líka frábær félagi, ég heyri oft í honum og ber undir hann pælingar. Ég lít á hann sem lærimeistara minn og við erum líka orðnir góðir vinir, ég get og mun alltaf geta leitað í viskubrunninn hans.

Annar sem ég verð að nefna er Milan Stefán Jankovic. Eins og oft er sagt um þennan snilling, líklega besti „grasþjálfari“ sem fyrirfinnst. Ég er samt auðvitað með mínar pælingar og veit hvernig ég vil gera hlutina. Ég hef verið heppinn í gegnum tíðina, hef lært af ótal mörgum. Sá fyrsti var Garðar Vignis, ég var honum til aðstoðar með sjötta flokkinn, var þá sjálfur rúmlega tíu ára. Þá fékk ég strax áhugann á þjálfun. Í dag eru kröfurnar þannig að ef maður ætlar að vinna við þjálfun verður maður að sækja sér menntun og það hef ég gert. Ég er að klára UEFA A þjálfaragráðuna í sumar, hef þá réttindi til að þjálfa í efstu deild karla og kvenna,“ segir Anton.

Barist um að komast upp

Undirbúningstímabilið hefur gengið vel og hópurinn er að verða fullmótaður. „Við vorum með þrjá erlenda leikmenn á síðasta tímabili, markmann, miðvörð og framherja. Ég ákvað hins vegar að sækja mér íslenskan markmann núna, fékk flotta stelpu að láni frá Stjörnunni. Heiðdís Emma er ungur og efnilegur markmaður og ég bind miklar vonir við hana í sumar. Útlendingarnir spila stöðu miðvarðar, miðjumanns og framherja en miðvörðurinn sem ég fékk fyrst, Momola Adesanmi kölluð Mó, sleit krossband eftir 90 sekúndur í fyrsta leik undirbúningstímabilsins. Hún spilaði með Fjölni í fyrra, hún er frábær karakter og það verður ekki auðvelt að fylla hennar skarð en ég verð auðvitað að reyna það. Von er á Dom sem er bandarísk, hún á að vera hörkuleikmaður. Svo verður fróðlegt að sjá tvíburasysturnar Jada Colbert og Jasmine Colbert en þær eru eineggja tvíburar og alveg ótrúlega líkar. Ég stefni á að láta þær bera sambærileg númer á bakinu, andstæðingurinn mun eiga erfitt með að þekkja þær í sundur. Gengið á undirbúningstímabilinu hefur verið upp og ofan en hafa ber í huga að okkur vantaði miðvörðinn í vörnina og ungar og efnilegar grindvískar stelpur þurftu að standa vaktina. Frábær reynsla og þær stelpur eiga eftir að koma sterkar inn þegar þær eldast og fá meiri reynslu. Það er mikill hugur í okkur. Ég tel okkur geta blandað okkur í baráttuna um að komast upp, við eigum einfaldlega að setja stefnuna á það. Efniviðurinn er svo sannarlega fyrir hendi og umgjörðin í kringum kvennaliðið er á við það besta sem þekkist hér á landi. Grindavík er alltaf að verða stærri og betri klúbbur, það er mikill kraftur í nýrri stjórn og ólíkt því sem áður var er nákvæmlega sami metnaður fyrir hönd kvennaliðsins og karlaliðsins.“

Grindavík vann góðan 6:1 sigur á Haukum í annarri umferð Mjólkurbikars kvenna um síðustu helgi. Myndir/Petra Rós Ólafsdóttir

Grindvískar stelpur til baka?

Grindavík hefur búið til marga góða leikmenn í gegnum tíðina, hæst ber auðvitað landsliðskonan og atvinnuleikmaðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir. Anton dreymir um að fá grindvísku leikmennina „heim“ þegar liðið fer upp í Bestu deildina. „Það yrði gaman og sterkt að fá allar grindvísku stelpurnar til baka en við eigum nokkrar sem eru að standa sig mjög vel. Dröfn Einars vill spila í efstu deildinni og er með Keflavík, Kristín Anítudóttir er með HK, er búsett í Reykjavík og ég skil að hún vilji ekki keyra á milli yfir veturinn. Helga Guðrún Kristinsdóttir er með Fylki og er í námi í Reykjavík. Ísabel Almars, sem hafði spilað með Keflavík, er leikmaður sem ég vil endilega fá til að reima á sig skóna á nýju en hún tók sér frí í fyrra. Ég vona að hún fái aftur áhugann og spili með okkur, hún er frábær leikmaður. Unnur Stefáns er sömuleiði hætt, hún spilaði síðast með Þór/KA á Akureyri, hún er þar í námi. Ég vona að hún verði fyrir sunnan í sumar og reyni að plata hana. Auðvitað snýst þetta samt mest um stelpurnar sem ég er með, ég er mjög ánægður með hópinn og veit að það eru mjög mikil efni á leiðinni, framtíðin er björt í fótboltanum í Grindavík,“ sagði Anton að lokum.