Kvennalið Njarðvíkur semur við þrjá leikmenn
Kvennalið Njarðvíkur í körfu samdi nýverið við þrjá leikmenn. Þórunn Friðriksdóttir, Jóhanna Pálsdóttir og Emelía Grétarsdóttir gerðu allar eins árs samning við félagið. Frá þessu er greint á heimasíðu Njarðvíkur.
Þórunn hefur verið á mála hjá félaginu allan sinn feril og Jóhanna er nýkomin heim frá Danmörku þar sem hún var við nám og körfubolta. Þá er Emelía á leið aftur í Njarðvík frá Grindavík þar sem hún lék á síðustu leiktíð.
Frekari tíðinda er að vænta á næstunni af kvennaliði félagsins sem tekur slaginn í 1. deild á næstu leiktíð og hefst sú vertíð með Suðurnesjaglímu gegn Grindavík í Mustad-Höllinni þann 6. október.