Kvennalið Grindavíkur hefur staðið storminn af sér
„Ég ætla bara að einbeita mér að þessu tímabili,“ segir Hulda Björk Ólafsdóttir, fyrirliði körfuknattleiksliðs Grindavíkur, en tímabilið sem nú er í gangi hefur ekki verið líkt neinu öðru hjá Grindvíkingum. Fyrstu vikurnar eftir fyrri rýminguna 10. nóvember var æft á nokkrum stöðum en undanfarnar vikur er komin meiri rútína á hlutina. Liðinu hefur gengið vel og tók ekki neina dýfu eftir hamfarirnar.
Hulda er ánægð með hvernig liðið hefur náð að halda sjó eftir þessar miklu breytingar. „Þetta var mjög krefjandi til að byrja með. Við æfðum á nokkrum stöðum en undanfarnar vikur höfum við æft í Smáranum, þar sem við spilum okkar heimaleiki, og í Akurskóla í Innri-Njarðvík. Þakklæti er mér efst í huga og þökkum við öllum félögum sem hafa boðið okkur aðstoð sína og Smáranum sem greip okkur og setti okkur undir sinn verndarvæng. Ég og mín fjölskylda höfum verið í Reykjanesbæ allan tímann, frændi minn bauð okkur að flytja inn í íbúðina sína og erum við honum ævinlega þakklát, algjört gull af manni.
Ég var farin að hlakka til að geta flutt aftur heim en eftir síðustu hamfarir er maður smá smeykur við tilhugsunina. Við vitum í raun ekkert hvað verður og verðum bara að taka einn dag fyrir í einu. Eins varðandi framtíð Grindavíkur í körfu, hvort við spilum áfram undir merkjum Grindavíkur eftir þetta tímabil eða ekki, þá leyfi ég sjálfri mér ekki að hugsa lengra og ég vil í raun bara einbeita mér að þessu tímabili og njóta þess að fá að spila fyrir Grindavík, bæinn minn og fólkið mitt. Við erum með gott lið og eigum góðan möguleika á að vinna titla í vetur.“
Grindavíkurliðið búið að styrkjast
Lið Grindavíkur er á sínu þriðja tímabili í efstu deild og hefur vakið verðskuldaða athygli. Liðið er byggt upp á heimastúlkum sem hafa æft og keppt lengi saman, auk þriggja öflugra, erlendra leikmanna og hugsanlega gæti annar bandarískur leikmaður verið að bætast í hópinn því Daniele Rodriguez fékk nýlega íslenskan ríkisborgararétt. „Ég er búin að æfa, keppa og vinna titla með grindvísku stelpunum og í raun alist upp með þeim. Við Hekla Eik höfum unnið fjölmarga titla saman og þekkjum hvora aðra út og inn. Hekla er hörkuleikmaður og gerir svo mikið fyrir liðið okkar. Hún hefur því miður verið meidd að undanförnu og verður mikill styrkur fyrir okkur að fá hana til baka, vonandi sem fyrst. Það var ákveðið að skipta öðrum Evrópuleikmanninum út og við fengum hina dönsku Sarah Sofie Mortensen í staðinn, hún er systir Daniels sem leikur með karlaliðinu. Hún hefur smollið vel inn í þetta hjá okkur og er virkilega flottur karakter. Við höfum möguleika á því að bæta við okkur bandarískum leikmanni en mér líst vel á liðið eins og það er núna. Við eigum Heklu Eik inni og vorum að fá frábæran leikmann, Dagnýju Lísu Davíðsdóttur, frá Fjölni. Hún er búin að vera frá vegna meiðsla í ár og er bara nýlega byrjuð svo hún á helling inni. Ég hlakka til seinni helmings tímabilsins,“ sagði Hulda að lokum.