Kvennakarfan: Keflavík sigrar ÍS í toppslag. Njarðvík tapar fyrir KR
KEFLAVÍK-ÍS
Keflavík vann öruggan sigur á ÍS, 75-47, í toppslag 1. deildar kvenna í körfuknattleik í dag. Leikurinn, sem fór fram á heimavelli Keflavíkur, var í öruggum höndum heimastúlkna frá upphafi. Í hálfleik var staðan 44-22 og seinni hálfleikur bauð upp á sömu dagskrá.
Birna Valgarðsdóttir var langstigahæst Keflvíkinga með 22 stig, en Erla Reynisdóttir skoraði 11 stig.
Alda Leif Jónsdóttir var stigahæst Stúdína með 13 stig og Hafdís Helgadóttir var með 10.
Hér má finna tölfræði leiksins
KR-NJARÐVÍK
Njarðvík tapaði illa fyrir KR í DHL-höllinni í dag. Lokastaðan var 71-49 heimaliðinu í vil eftir að þær höfðu haft forystu allan leikinn. Hálfleikstölur voru 39-23. Andrea Gaines lék sinn fyrsta leik fyrir Njarðvíkinga eftir hremmingarnar sem hún lenti í í heimalandi sínu um hátíðirnar, en fann sig engan veginn og hitti einungis úr 4 skotum af 24. Hún á enn nokkuð í land með að vera sá máttarstólpi sem hún var fyrir jól, en Njarðvíkurliðið allt átti hreint ekki góðan dag undir körfunni þar sem KR einokaði fráköstin. Gaines og hinir Njarðvíkingarnir verða að taka sig á vegna þess að Grindvíkingar geta minnkað stigamuninn á liðunum niður í tvö stig ef þær sigra botnlið ÍR á morgun.
Gaines var þó stigahæst Njarðvíkinga með 16 stig og tók 12 fráköst, en Auður Jónsdóttir skoraði 11 stig.
Hildur Jónsdóttir átti góðan leik fyrir KR og skoraði 17 stig og tók 11 fráköst, en Lilja Oddsdóttir kom henni næst með 14 stig.
Hér má finna tölfræði leiksins