Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 21. febrúar 2004 kl. 21:23

Kvennakarfan: Keflavík deildarmeistarar!

Keflavíkurstúlkur tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í 1. deild kvenna með sigri á KR í dag á meðan Stúdínur töpuðu fyrir Grindvíkingum. Þannig er stigamunurinn á liðunum sex stig, en einungis tvær umferðir eftir. Eru stúlkurnar vel að titlinum komnar þar sem þær hafa spilað liða best í vetur og verða illviðráðanlegar í úrslitakeppninni.

KEFLAVÍK-KR 73-57

Keflvíkingar unnu góðan sigur á KR í dag eftir að hafa haft frumkvæðið allan leikinn. Keflvíkingar héldu vandlega aftur af Hildi Sigurðardóttur og Katie Wolf, sem skoruðu ekki nema 16 stig samanlagt í leiknum, en þær skora að jafnaði 18 stig hvor í deildinni. Þegar þær tvær eru ekki að skila sínu er mesta bitið farið úr sóknarleik liðsins og var það lykillinn að sigri Keflvíkinga sem sýndu mun betri leik en þegar liðin mættust síðast í bikarúrslitunum þar sem þær þurftu að stela sigrinum á lokasprettinum.

Sigurinn þýddi að deildarmeistaratitillinn væri í höfn ef Stúdínum fataðist flugið síðar um daginn gegn Grindvíkingum.

Stigahæstar:

Kef: Rannveig Randversdóttir 17, Birna Valgarðsdóttir 14, Anna María Sveinsdóttir 13/14, Erla Þorsteinsdóttir 11/14.

KR: Sigrún Skarphéðinsdóttir 11, Lilja Oddsdóttir 11, Katie Wolfe 10.

 

Hér má finna tölfræði leiksins

 

GRINDAVÍK-ÍS 73-68

Stúdínur þurftu nauðsynlega að vinna þennan leik til að eiga möguleika á deildarmeistaratitlinum, en Grindvíkingar höfðu annað í hyggju og unnu góðan heimasigur.

Grindvikingar leiddu lengst af í fyrri hálfleik og höfðu 6 stiga forskot í leikhléi, 35-29. ÍS komu hins vegar með látum út í seinni hálfleikinn og sneru taflinu svo sannarlega við og höfðu forystu, 47-53, fyrir lokakaflann. Þar hrukku heimastúlkur loks í gang á ný og tóku leikinn í sínar hendur og unnu að lokum góðan sigur. Þar með voru Keflvikingar komnar með deildarmeistaratitilinn, eins og áður sagði, og Grindvíkingar eru nú allt að því öruggar með 4. sæti deildarinnar og þátttöku í úrslitakeppninni.

Stigahæstar:

Gri: Ólöf Pálsdóttir 21, Kesha Tardy 15.

ÍS: Hafdís Helgadóttir 17, Stella Kristjánsdóttir 16, Alda Leif Jónsdóttir 15/11.

 

Hér má finna tölfræði leiksins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024