Kvennakarfan í dag: Njarðvík deildarmeistari í 1. deild!
Grindvískur sigur í Vesturbænum - Keflavík steinlá í Stykkishólmi
Njarðvíkurstúlkur voru í dag krýndar deildarmeistarar í 1. deild kvenna eftir öruggan sigur á liði Þórs frá Akureyri, 78-49.
Lið Njarðvíkur var búið að tryggja sér titilinn fyrir leik en liðið hefur haft nokkra yfirburði í deildinni í vetur og er vel að titlinum komið. Það er því ljóst að þrjú Suðurnesjalið munu spila í deild þeirra bestu að ári.
Viðtal við Andreu Ólafsdóttur, eins helsta burðaráss Njarðvíkurstúlkna, má finna hér en það er karfan.is sem tók viðtalið eftir leikinn í dag.
Í úrvalsdeild kvenna má segja að Keflavíkurstúlkur hafi misst endanlega af tækifærinu til að vinna deildarmeistaratitilinn þegar liðið tapaði stórt fyrir toppliði Snæfells í Stykkishólmi, 86-66.
Sara Rún Hinriksdóttir var atkvæðamest hjá Keflavík með 18 stig og þær Birna Valgarðsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir skoruðu 10 stig hvor.
Grindavíkurstúlkur lögðu KR í háspennuslag í DHL höllinni, 57-59. Grindvíkingar tóku þar með stórt skref í áttinni að úrslitakeppninni og eru nú fjórum stigum á undan liði Hauka.
Kristina King bar af í liði Grindavíkur með 23 stig og þá skoraði Petrúnella Skúladóttir 7 stig.