Kvennakarfan: Grindavík og Keflavík sannfærandi
Grindavík og Keflavík unnu leiki sína í fyrstu umferð 1. deildar kvenna sem fór fram í gærkvöld.
NJARÐVÍK-KEFLAVÍK
Keflavík vann næsta auðveldan útisigur á nágrönnum sínum í Njarðvík, 49-81.
Þær hófu leikinn af krafti og náðu snemma góðu forskoti. Staðan var 10-22 eftir fyrsta fjórðung en Njarðvíkurstúlkur bitu hressilega frá sér í öðrum leikhluta. Þær minnkuðu muninn allt niður í 24-25 áður en Keflvíkingar hrukku loks í gang aftur. Þær höfðu aukið muninn í 18 stig í hálfleik, 29-47, og eftir það var leikurinn í raun búinn.
Keflavíkurstúlkur virðast vera til alls líklegar í vetur og ef má ráða eitthvað af varnarleik þeirra í kvöld mega hin liðin fara að kvíða fyrir leikjunum gegn þeim.
Þessi feiknarlega öflugi varnarleikur er ef til vill ekki skrítinn ef litið er til þess að þjálfari stúlknanna er Sverrir Þór Sverrisson, annálaður varnarjaxl. Hann var sáttur við sigurinn í leikslok. „Þær komu sterkar inn á kafla í fyrri hálfleik og við þurftum að hafa fyrir þessu. Við spiluðum hins vegar sterka vörn og lokuðum á Kanann þeirra og pressuðum stíft á þær. Svo fengum við margar auðveldar körfur eftir að við unnum boltann.“
Jón Júlíus Árnason, þjálfari Njarðvíkurstúlkna sagði úrslitin ekki koma á óvart. „Þær eru hiklaust með miklu betra lið en við núna þannig að þetta var viðbúið. Ég hef samt trú á því að við eigum eftir að koma á óvart í vetur og ég lofa þeim sem fylgjast með okkur að við munum ekki falla eins og okkur er spáð. Stelpurnar eru reynslulitlar en nú eru þær komnar út í djúpu laugina og þurfa að læra að synda.“
GRINDAVÍK-KR
Grindavík vann heimasigur á KR í gærkvöld, 65-55. Grindavíkurstúlkur byrjuðu ekki vel og voru undir mestallan fyrri hálfleikinn.
Staðan var 14-15 eftir fyrst leikhluta og 24-28 í hálfleik. Þá hrukku heimastúlkur loks í gang og unnu upp muninn og leiddu 45-41 fyrir lokahlutann. Þar var það sama uppi á teningnum og munurinn jókst allt til loka.
Erla Þorsteinsdóttir lék sinn fyrsta deildarleik með Grindavík eftir skiptin frá Keflavík og byrjar vel. Hún skoraði 21 stig og hitti úr 9 af 10 tveggja stiga skotum sínum. Erla Reynisdóttir, sem er einnig nýkomin frá Keflavík, kom næst með 13 stig.
Örvar Kristjánsson, þjálfari Grindavíkur, sagðist í samtali við Víkurfréttir hafa verið ósáttur við sóknarleikinn hjá þeim í fyrri hálfleik. „Vörnin var hins vegar mjög góð hjá okkur, sérstaklega var Ólöf Helga Pálsdóttir öflug og tók Katie Wolfe alveg úr umferð. Þetta var ágæt byrjun hjá okkur en við eigum eftir að verða betri. Þetta er allt á réttri leið.“