Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kveða Njarðvíkingar niður Grindavíkur-grýluna?
Baráttan hefst í Röstinni í kvöld
Föstudagur 4. apríl 2014 kl. 08:04

Kveða Njarðvíkingar niður Grindavíkur-grýluna?

-Gulir eða Grænir í úrslit Domino’s deildarinnar

Fyrsta viðureign Grindvíkinga og Njarðvíkinga í undanúrslitum Domino’s deildar karla í körfubolta hefst í kvöld, föstudaginn klukkan 18:00 í Grindavík. Grindvíkingar höfnuðu í þriðja sæti deildarinnar en Njarðvíkingar því fjórða. Grindavík fagnaði sigri í tveimur viðureignum liðanna í deildinni í vetur. Einnig áttust liðin við í 8-liða úrslitum bikarsins þar sem Grindvíkingar höfðu eins stigs sigur í spennandi leik. Af þessu að dæma verða Grindvíkingar að teljast sigurstranglegri. Njarðvíkingar eru hins vegar ekki á þeim buxunum að lúta í lægra haldi. Þeir sendu Hauka í sumarfrí eftir 3-0 viðureign en allir leikirnir voru jafnir og spennandi. Þar sýndu Njarðvíkingar mikinn styrk og koma því fullir sjálfstrausts til móts við meistara síðustu tveggja ára úr Röstinni.

Allt sem mælir með því að þeir klári þessa seríu

Njarðvíkingar hafa ekki unnið leik gegn Grindavík í deildarkeppni síðan í október árið 2009 og því má tala um nokkurs konar Grindavíkur-grýlu hjá þeim grænu. Einar Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga segir að hann sé ekki að spá mikið í fortíðina en vissulega sé þetta langur tími. „Það er mikil tilhlökkun og spenna í okkar herbúðum. Við erum búnir að vera að berjast fyrir því undanfarin ár að komast í undanúrslit með þetta unga lið,“ segir Einar en liðið hefur fallið úr keppni undanfarin ár í 8-liða úrslitum. Liðið féll úr leik eftir rimmu gegn Grindvíkingum árið 2012 en þar voru flestir leikmenn liðsins að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og í efstu deild.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það var tvennt ólíkt að falla úr leik gegn Grindavík árið 2012 og svo gegn Snæfelli í fyrra. Gegn Grindavík var maður mjög stoltur af ungu strákunum en gegn Snæfelli var þetta virkilega svekkjandi. Við fengum öflugan stuðning og vonbrigðin voru mikil,“ segir þjálfarinn sem telur að liðið sé reynslunni ríkara í ár. „Löngunin virðist vera til staðar núna og við sýndum viss þroskamerki gegn Haukum. Menn hafa þroskast mikið enda fengið að njóta góðs af því að fá mikinn tíma til þess að spila í meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur.“

Einar snýr sér að þjálfun yngri flokka eftir tímabilið og hann fer ekki í neinar grafgötur með að það hefur áhrif á nálgun hans á síðustu leiki þessa tímabils. „Ég trúi því að það geti hjálpað okkur öllum að staðan sé svona. Við erum flestir búnir að puða mikið saman undanfarin ár og lagt mikið á okkur. Ef þetta er ekki augnablik til þess að kreista út allt það besta á lokasprettinum þá veit ég ekki hvað.“ Einar er 37 ára gamall en hann telur að hann eigi eftir að koma að þjálfun meistaraflokks aftur, enda bara unglamb í þjálfarastéttinni. „Maður veit aldrei hvað verður. Keppnismaðurinn í mér mun væntanlega grípa völdin á einhverjum tímapunkti og útiloka ég því ekkert.“

Njarðvíkingar eru að mæta meisturum síðustu tveggja ára og nýkrýndum bikarmeisturum. Að auki hefur liðinu gengið illa gegn þeim gulklæddu undanfarin ár. „Ég á eftir að sjá þetta Njarðvíkurlið sem ég er með í höndunum núna mæta Grindavík. Áður var Nigel með okkur og svo Tracy í töluvert verra formi en hann er í núna þegar við mættum þeim síðast. Þeir eru með gríðarlega sterkt fimm manna lið og mikla reynslu og þekkingu. Við pössum nokkuð vel á móti þeim og tel ég að þarna verði mörg áhugaverð einvígi meðal leikmanna sem gaman verður að sjá kljást.“
Einar telur að hópar liðanna séu ekkert svo ólíkir en það sé staðreynd að þekkingin og reynslan á þessu stigi sé meiri Grindavíkurmegin. „Við berum mikla virðingu fyrir andstæðingunum sem eru meistarar síðustu tveggja ára. Ef eitthvað er þá er þetta bara áskorun. Það er allt sem mælir með því að þeir klári þessa seríu. Það er þó mikill hugur í okkur og stuðningsmönnunum. Ég er bjartsýnn á góðan stuðning frá okkar fólki. Ég hef fulla trú á því að við getum sótt sigur gegn Grindavík sem er fyrsta skref. Við förum í leikinn á föstudaginn til þess að vinna, það er ekki flókið.“

Sverrir treystir á sterka liðsheild

Þjálfarinn Sverrir Þór segist kunna vel við sig í Grindavík en hann gekk frá nýjum tveggja ára samningi við félagið á dögunum. Þar samdi hann einnig um að taka að sér þjálfun kvennaliðs félagsins. Eins og áður hefur komið fram eru Grindvíkingar sjóðheitir eftir áramót og stefna þeir hraðbyr að þriðja Íslandsmeistaratitlinum í röð.

Þorleifur Ólafsson fyrirliði er úr leik þetta tímabilið eftir að hafa meiðst illa á hné. Sverrir segir það mikið áfall að missa Þorleif út en hann sé þó til taks á bekknum með andlegan stuðning. „Hann er frábær leikmaður og mikill leiðtogi í þessu liði. Nú er tækifæri fyrir aðra til að stíga rækilega upp og taka ábyrgð.“ Liðsheildin er sterk hjá Grindvíkingum. Sverrir er á því að mönnum sé umhugað um liðsheildina en ekki tölur og einstaklingsafrek. „Það er styrkur okkar að leikmenn hugsa fyrst og fremst um gengi liðsins. Við erum svo með marga leikmenn sem geta tekið að sér að bera sóknarleikinn uppi þegar þess þarf.“

Varðandi andstæðingana þá segir Sverrir að þar beri margt að varast. „Þeir eru með 7-8 menn sem geta valdið usla og með þekktar stærðir eins og Elvar, Loga og Tracy sem er óðum að komast í form. Það er engin tilviljun að þetta lið er komið í undanúrslit. Við erum að fara í hörkueinvígi við Njarðvík um að komast í úrslit. Við erum að fá mjög erfiðan andstæðing og við verðum að vera klárir ef við ætlum að slá þá út.“

Sverrir þekkir Suðurnesjarimmur sem þessar ansi vel enda tekið þátt í þeim nokkrum sem leikmaður og þjálfari. „Það er alltaf meiri spenna í kringum körfuboltann þegar Suðurnesjalið eru að mætast. Það virðist vera einhver extra stemning í Suðurnesjaslag sem þessum og fleiri mæta á leikina. Ég býst við miklum látum og kjaftfullu húsi á föstudag,“ segir þjálfarinn sigursæli. „Við tæklum bara einn leik í einu og komum grimmir til leiks. Við ætlum okkur að ná í sigurinn á heimavelli í fyrsta leiknum,“ segir Sverrir að lokum.

  • Saga liðanna í úrslitakeppni

  • Liðin léku til lokaúrslita árin 1994 og 1995 þar sem Njarðvíkingar fögnuðu sigri í bæði skiptin.

  • Árið 1997 mættust liðin í undanúrslitum þar sem Grindvíkingar sópuðu Njarðvík 3-0.

  • Liðin mættust í undaúrslitum árið 2007 þar sem Njarðvíkingar fögnuðu sigri 3-2.

  • Árið 2012 mættust liðin í 8-liða úrslitum þar sem Grindvíkingar unnu rimmuna 2-0. Þeir fóru svo alla leið og unnu titilinn það árið líkt og í fyrra.