Króatískur markvörður til Grindavíkur
Knattspyrnulið Grindavíkur hefur fengið til liðs við sig króatíska markvörðinn Zankarlo Simunic sem er 35 ára gamall. Simunic leikur með Polonia í Póllandi og er samningsbundinn þar út júní. Grindvíkingar vonast til þess að leikmaðurinn nái að losa sig undan samningi og verði klár í slaginn með gulum gegn Fjölni næstkomandi mánudag. Þetta kemur fram hjá vefmiðlinum www.fotbolti.net í dag.
Grindvíkingar hafa enn ekki fengið leikheimild fyrir framherjann Gilles Mbang Ondo en óvíst er hvort það náist áður en að félagaskiptaglugginn lokar á miðnætti í kvöld.
Grindvíkingar urðu einnig fyrir áfalli í leiknum í gær gegn Valsmönnum en varnarmaðurinn Zoran Stamenic varð þá að fara meiddur af velli og meiðsli hans líta ekki vel út.
Þá lánuðu Grindvíkingar tvo unga leikmenn frá sér í dag en varnarmennirnir Áslaugur Andri Jóhannsson og Ólafur Daði Hermannsson, sem eru báðir á tuttugasta aldursári, hafa farið til Þróttar í Vogum á láni.
Heimild: www.fotbolti.net
VF-Mynd/ Úr safni – Frá leik Grindavíkur og KR í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar 2008.