Kristrún Ýr tryggði Keflavík sigur
Keflvíking unnu sinn annan leik í röð í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu þegar Tindastóll kom í heimsókn í dag. Bæði lið eru nýliðar í deildinni og baráttan bar fegurðina ofurliði í leiknum.
Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik þar sem hvorugu liði tókst að skapa sér færi. Mikil barátta einkenndi hálfleikinn og staðan markalaus í hálfleik.
Keflvíkingar fengu óskabyrjun í seinni hálfleik þegar Kristrún Ýr Holm skoraði eftir hornspyrnu og mikinn darraðadans fyrir framan mark Tindastóls (49'). Staðan 1:0 fyrir Keflavík.
Baráttan hélt áfram að vera áberandi í leiknum og eftir að leikmaður Tindastóls reyndi í pirringi að sparka í liggjandi Keflvíking, og fékk aðeins að líta gult spjald, jókst harkan verulega. Keflvíkingar voru talsvert betri aðilinn í seinni hálfleik og í raun ótrúlegt að þær hafi aðeins skorað eitt mark en markvörður Tindastóls var á tánum og sýndi hverja glæsimarkvörsluna eftir aðra í leiknum. Keflvíkingar áttu stangarskot og auk þess að skora öðru sinni en það mark var dæmt af vegna rangstöðu.
Í liði heimamanna var Aerial Chavarin stöðugt ógnandi og vinnusöm og þá sýndi liðið allt mikinn kraft og baráttuvilja á vellinum. Þótt Keflvíkingar væri án hinnar sterku Celine Rumpf í vörninni vann hún vel undir styrkri stjórn fyrirliðans, Natasha Anasi, og gaf Stólunum ekki færi á að jafna leikinn.
Eftir sigurinn er Keflavík í sjötta sæti deildarinnar með níu stig en aðeins einn leikur hefur verið leikinn í umferðinni.
Keflvíkingar mættu vera duglegri að mæta á völlinn og styðja sitt lið en það var áberandi hve miklu munaði á stuðningsmönnum liðanna. Stuðningsmenn frá Sauðárkróki voru áberandi líflegri á pöllunum og létu vel í sér heyra á meðan mun minna fór fyrir stuðningi við heimaliðið.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum í dag og tók myndir sem má sjá í meðfylgjandi myndasafni.