Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kristján: Gott tækifæri til að bæta stöðu liðsins
Fimmtudagur 20. júní 2013 kl. 22:01

Kristján: Gott tækifæri til að bæta stöðu liðsins

Kristján Guðmundsson er tekinn á ný við karlaliði Keflavíkur og tekur við liðinu af Zoran Daníel Ljubicic sem var leystur frá störfum í gær. Segja má að Kristján sé að koma heim en hann stóð sig vel í starfi hjá Keflavík og stýrði liðinu í fimm ár frá árinu 2005-2009. Keflavík náði sínum besta árangri á síðari árum undir hans stjórn árið 2008 þegar liðið hafnaði í öðru sæti. Kristján hætti störfum hjá Keflavík haustið 2009 og hefur þjálfað í Færeyjum og Val á síðustu árum. Hann er nú mættur aftur til Keflavíkur eftir fjögurra ára fjarveru.

„Ég hef fengið mörg skeyti þar sem Keflvíkingar bjóða mig velkominn heim,“ segir Kristján, léttur í bragði. „Þetta var auðvitað mitt annað heimili í fimm ár og upplifði margar frábærar stundir hjá Keflavík. Ég er virkilega ánægður og hlakka til.“

Óhætt er að segja að hlutirnir hafi gerst hratt og samdi Kristján um það að stýra liðinu út leiktíðina seint á þriðjudagskvöld. „Þetta gerðist hratt. Ég þurfti ekkert að hugsa mig um eftir að mér var boðið starfið. Ef Keflavík biður þig um aðstoð þá segir þú ekki nei,“ segir Kristján.

„Verkefnið leggst vel í mig. Það eru 15 leikir eftir og gott tækifæri á að bæta stöðu liðsins í deildinni. Það sem skiptir mestu máli er að allir þeir sem starfa hjá félaginu, hvort sem það eru leikmenn, þjálfarar eða stjórn, taki á sig ábyrgð og rói saman í sömu átt.“

Hittir leikmenn í dag

Kristján kveðst þekkja leikmannahóp Keflavíkur vel og er bjartsýnn á góðan árangur. „Þetta er spennandi leikmannahópur. Aldurssamsetningin er góð - ungir leikmenn í bland við eldri. Ég hef unnið með helmingnum af leikmönnunum áður og þekki marga þeirra mjög vel. Ég mun hitta leikmenn á morgun og þá munum við setjast niður - ræða málin og setja okkur markmið. Það er stutt í næsta leik og ætli markmið núna sé ekki bara að taka einn leik í einu,“ segir Kristján. Við spurðum hann hvernig það væri að taka við liði Keflavíkur af Zoran sem hefur starfað hjá Keflavík um árabil og stýrt meistaraflokki.

„Zoran hefur þjónað Keflavík vel og á þakkir skilið. Ég starfaði með honum í þau fimm ár sem ég var hjá Keflavík og Zoran hefur skilað frábæru starfi. Hann framtíðina fyrir sér sem þjálfari.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024