Kristján áfram með Keflavík
- samdi til tveggja ára
Kristján Guðmundsson mun þjálfa Keflvíkinga næstu tvö árin, en samningur þess eðlis var undirritaður í dag. Kristján tók við liðinu snemma sumars í fyrra og forðaði liðinu frá fallbaráttu. Í sumar höfnuðu Keflvíkingar í sjöunda sæti eftir góða byrjun. Mikil ánægja hefur ríkt með störf Kristjáns hjá Knattspyrnudeildinni og eru menn þar á bæ ánægðir með að hann verði áfram með liðið, en frá þessu er greint á heimasíðu Keflavíkur.
Kristján þjálfaði Keflavík fyrst árið 2005 og var þá með liðið út árið 2009. Hann gerði Keflavík að bikarmeisturum árið 2006 og árið 2008 var liðið í 2. sæti deildarinnar. Kristján tók svo aftur við liðinu um mitt síðasta sumar og hefur stjórnað því síðan. Þess má geta að hann hefur stýrt Keflavík í 167 leikjum og er með langflesta leiki sem þjálfari liðsins. Kristján hefur stjórnað Keflavík í 135 leikjum í efstu deild, 20 bikarleikjum og 12 Evrópuleikjum og er með flesta leiki við stjórnvölinn hjá félaginu í öllum þessum keppnum. Kristján hefur einnig þjálfað ÍR, Þór og Val á Íslandi en auk þess var hann með HB í Færeyjum í eitt ár.
Í fyrra fagnaði Kristján með Snickersköku eins og sjá má hér að neðan, hvað gerir hann núna?
Nýjum samningi við Keflavík fagnað @kaffitar með Snickerstertu og tvöföldum Cappuccino #snickers #sunnykef pic.twitter.com/JX4wKezsu6
— Kristján Gudmundsson (@knottur) October 3, 2013