Kristján: Aðgerðin hjá Ingva tókst vel til
Knattspyrnuþjálfari Keflavíkur, Kristján Guðmundsson, tjáði Víkurfréttum í dag að aðgerðin sem leikmaðurinn Ingvi Rafn Guðmundsson gekkst undir í Þýskalandi á fimmtudag hefði heppnast vel. ,,Ingvi er enn í sjúkraþjálfun í Þýskalandi og er væntanlegur heim á fimmtudag,” sagði Kristján í samtali við Víkurfréttir.
Ingvi Rafn Guðmundsson hefur síðustu þrjú ár glímt við alvarleg meiðsli sem hann hlaut í Vestmannaeyjum með Keflavík í leik gegn ÍBV. Hann kom þó lítillega við sögu með Keflavík á síðustu leiktíð en fór nú síðasta fimmtudag í aðgerð í Þýskalandi.
,,Við vonumst til að hann verði með í sumar og erum spenntir að sjá hvað þessi aðgerð gerir fyrir hann. Ég hef trú á því að Ingvi geti þetta en við skulum ekki setja neinar þyngdir á hann. Hann tekur sér bara sinn tíma en hann hefur stefnt að bata síðustu þrjú ár og er duglegur til æfinga,” sagði Kristján. Það eru því gleðitíðindi fyrir Keflvíkinga að aðgerðin ytra skildi hafa lukkast jafn vel og raun ber vitni.
Undirbúningstímabilið hjá Keflavík er nú í fullum gangi og sagði Kristján við Víkurfréttir að liðið æfði sjö daga vikunnar. Varnarmaðurinn sænski Kenneth Gustafsson er mættur til landsinst til æfinga en hinn miðvörðurinn Guðmundur Viðar Mete hefur verið í sjúkraþjálfun. Þá er Símun Samuelsen í barneignafríi í Færeyjum en er væntanlegur til æfinga með Keflvíkingum í febrúar.
,,Við erum í því að koma okkur í stand og höfum verið að spila æfingaleiki. Úrslitin hafa ekki verið ýkja góð en ungu strákarnir eru að fá að spila og sýna úr hverju þeir séu gerðir,” sagði Kristján og kvaðst ánægður með nýja gervigrasið í Reykjaneshöll. ,,Grasið er flott og þetta er gríðarleg breyting fyrir okkur. Þannig séð er þetta mun betra en áður og ekki eins mikil hætta á álagsmeiðslum sem sumir leikmenn áttu hættu á þegar gamla grasið var í Reykjaneshöll.”
Framundan eru stífar æfingar hjá Keflvíkingum og keppni í deildarbikarnum hefst í lok febrúar og síðla í mars munu Keflvíkingar fara saman í æfingaferð og sagði Kristján að líklega yrði farið til Tyrklands.
VF-Mynd/ [email protected] – Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur tjáði Víkurfréttum að aðgerðin á Ingva hefði tekist vel til.