Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kristinn yfir 1000 leikja múrinn
Fimmtudagur 10. janúar 2008 kl. 15:15

Kristinn yfir 1000 leikja múrinn

Körfuknattleiksdómarinn Kristinn Óskarsson dæmdi þann 4. janúar síðastliðinn sinn 1000. leik á vegum Körfuknattleikssambands Íslands. Þúsundasti leikurinn var viðureign Vals og Reynis í 1. deild karla þar sem Kristinn dæmdi í þriggja dómara kerfinu með þeim Sigmundi Má Herbertssyni og Björgvini Rúnarssyni. Kristinn er einn fremsti körfuknattleiksdómari þjóðarinnar og sagði að heilt yfir hafi ferillinn verið skemmtilegur.

,,Leikur Vals og Reynis var ekkert öðruvísi en aðrir leikir nema við vorum í þriggja dómara kerfinu,” sagði Kristinn sem í gærkvöldi dæmdi viðureign USO Basket og MiZo Pécs Euroleague kvenna. Í kvöld dæmir hann svo leik US Valenciennes og Loto Gdynia í sömu keppni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

 

Félagarnir dæmdu leik Vals og Reynis í þriggja dómara kerfinu svo þeir fengju æfingu í því fyrir Evrópuverkefni sín. Það var svo á laugardag í viðureign ÍR og Þórs Akureyri í Iceland Express deild karla sem Hannes S. Jónsson formaður KKÍ heiðraði Kristinn sérstaklega fyrir 1000 leikja áfangann.

 

,,Ég byrjaði að fikta 1986 en árið 1987 fór ég að dæma körfuboltann af aflvöru,” sagði Kristinn sem hefur marga fjöruna sopið í dómgæslunni en sagði að vitaskuld væri þúsundasti leikurinn eftirminnilegastur en fleiri gerðu þó tilkall í þann titil. ,,Það var líka einn fjórframlengdur leikur í Borgarnesi sem var mjög eftirminnilegur hjá mér. Þá mættust Skallagrímur og KFÍ og þann leik dæmdi ég með vini mínum Einari Einarssyni. Auðvitað er einn og einn leikur sem er ekkert skemmtilegur en heilt yfir hefur þetta verið mjög gaman, annars væri ég hættur,” sagði Kristinn hress í bragði við Víkurfréttir.

 

VF-Mynd/ Stefán Þór Borgþórsson, [email protected]Kristinn ásamt Ísaki syni sínum í 1000. leiknum þegar Valur og Reynir mættust í Vodafonehöllinni í Reykjavík í 1. deild karla.