Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kristinn: Spenntur fyrir framhaldinu
Þriðjudagur 5. febrúar 2008 kl. 15:12

Kristinn: Spenntur fyrir framhaldinu

Körfuknattleiksdómarinn Kristinn Óskarsson var í dag útnefndur besti dómarinn í Iceland Express deild karla fyrir umferðir 9-15. Kristinn sagði í samtali við Víkurfréttir að nú væri sá tími að ganga í garð sem allir dómarar hafa verið að undirbúa sig fyrir.

 

,,Það er mjög gaman að fá klapp á bakið og nauðsynlegt í svona erilsömu starfi að finna að maður er að gera gagn,” sagði Kristinn og kvaðst spenntur fyrir framhaldinu.

 

,,Nú er sá tími að ganga í garð sem maður hefur unnið hart að í allan vetur og það er að undirbúa sig fyrir úrslitakeppnina og svo eru bikarúrslit framundan sem eru ekki bara einn stærsti viðburðurinn í lífi leikmanna og þjálfara heldur dómaranna líka. Nú eru einhverjir dómarar sem vonast eftir því að vera valdir á bikarleikina. Endaspretturinn er að bresta á og svo allir dómararnir eru spenntir,” sagði Kristinn en venju samkvæmt er dómurum raðað á bikarúrslitaleikina um 10 dögum fyrir leik.

 

Hver dómari sem dæmir hér á Íslandi er skipaður af félagi en Kristinn dæmir fyrir Keflavík og því kemur hann til greina sem dómari í báðum úrslitaleikjunum þar sem Keflavík misfórst að koma sér í Höllina. Hann hefur þó oftar en ekki verið á pöllunum í Höllinni þar sem Keflvíkingar eru á meðal sigursælustu liða landsin, bæði í deild og bikar.

 

,,Við Suðurnesjadómararnir höfum ekki mikið verið að dæma bikarúrslitaleikina, það er bara þannig. Það er bara gaman þegar uppeldisfélagi manns gengur vel og þá er maður bara í stúkunni sem áhugamaður þá stundina. Ég ákvað það snemma að láta ekki glæstan árangur Keflavíkurliðanna pirra mig og ég hef heldur aldrei vonað að Keflavík myndi ganga illa til þess að ég ætti meiri möguleika á því að dæma stórleikina,” sagði Kristinn í léttu bragði.

 

Kristinn hefur verið á faraldsfæti í vetur og dæmt fjölda leikja erlendis, er eitthvað slíkt á döfinni?

 

,,Nú er komið að úrslitakeppninni í Evrópukeppnunum og við höfum ekki fengið tilnefningu til að dæma þar en við höfum samt verið mjög ánægðir með þau verkefni sem við höfum fengið í vetur,” sagði Kristinn að lokum sem átti síður von á því að íslensku dómararnir fengju fleiri verkefni á erlendri grundu þennan veturinn.

 

Kristinn Óskarsson er einn reynslumesti og fremsti dómari landsins og hefur dæmt rétt rúmlega 1000 körfuboltaleiki á vegum KKÍ. Hann er í feiknaformi um þessar mundir og ekki langt að bíða þess að leikirnir fari að nálgast annað þúsundið.

 

VF-Mynd/ [email protected]Kristinn ásamt Hannesi Jónssyni formanni KKÍ við verðlaunaafhendinguna á veitingastaðnum Carpe Diem í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024