Kristinn Óskars kom sér og öðrum á óvart á Íslandsmótinu í golfi
„Fyrsta markmiðið var bara að komast í gegnum niðurskurðinn. Það tókst og gott betur og þetta var mjög skemmtilegt,“ sagði Kristinn Óskarsson, körfuknattleiksdómari úr Keflavík en hann kom skemmtilega á óvart á Íslandsmótinu í höggleik í golfi sem fram fór á Hellu um sl. helgi. Kristinn endaði í 5.-6. sæti á tveimur yfir pari.
Kappinn kom sjálfum sér og fleirum á óvart þegar hann blandaði sér strax í toppbaráttuna þegar hann lék tvo fyrstu hringina á tveimur undir pari samtals, hvorn hring á 69 höggum og var í þriðja sæti. Hann hélt uppteknum hætti í þriðja hring og var aðeins tveimur höggum á eftir efsta manni og í 2.-.3. sæti þegar hann átti tvær holur óleiknar. Á 17. braut var hann hins vegar mjög óheppinn með legu boltans eftir upphafshöggið, fór aðeins út fyrir braut en lenti í einu þúfunni á stóru svæði og þar lá boltinn mjög illa. Hann lenti í miklum vandræðum og endaði holuna á 3 yfir pari og svo fékk hann skolla á síðustu brautinni. Endaði því þriðja hringinn á 4 yfir pari. Lokahringinn lék hann á pari og endaði sem fyrr segir í 5.-6. sæti ásamt atvinnukylfingnum Ólafi B. Loftssyni, sem er frábær árangur.
„Ég fæ kannski eftir þessa frammistöðu að heyra oftar að ég sé kylfingur en ekki körfuknattleiksdómari,“ sagði Kristinn í léttum tón eftir mótið.
Margeir Vilhjálmsson pistlahöfundur á golfsíðu Víkurfrétta, kylfingur.is, sagði Kristin mann mótsins: „Og svo að sjálfsögðu maður mótsins, Kristinn Óskarsson. Frábær frammistaða og sýnir okkur að það er von fyrir helgargolfarana, þrátt fyrir að stunda fulla vinnu samhliða golfinu.“
(Meira í prentútgáfu VF á fimmtudag.)
Davíð K. Hreinsson, körfuboltadómari og félagi Kristins mætti með honum á þriðja keppnisdegi og var kylfusveinn fyrir hann. Davíð mætti að sjálfsögðu í dómarabúningi en Kristinn hafði sjálfur sagt það í viðtali daginn áður að það væri möguleiki að hann sjálfur kæmi í búningi og með flautuna um hálsinn.