Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kristinn Friðriksson: Dómararnir unnu leikinn fyrir Grindavík
Föstudagur 23. febrúar 2007 kl. 13:08

Kristinn Friðriksson: Dómararnir unnu leikinn fyrir Grindavík

Tindastólsmenn voru afar óánægðir með frammistöðu dómaranna í leiknum gegn Grindavík í gær. Þá aðallega síðustu þrjár mínútur leiksins. Grindavík hafði sigur í leiknum 109-99 en Grindavík skóp þennan mun aðeins á síðustu þremur mínútum leiksins. Kristinn Friðriksson, þjálfari Tindastóls, segir að dómararnir hafi unnið leikinn fyrir Grindavík. Kristinn segir einnig að úrslitakeppnin sé aðeins bónus fyrir Tindastól

 

,,Það sáu það allir í húsinu að dómararnir unnu þennan leik fyrir Grindavík. Annars var þetta frábær leikur en síðustu þrjár mínúturnar í þessum leik voru dómaranna fannst mér. Liðin voru að spila mjög skemmtilegan körfubolta og úr varð skemmtilegur leikur,” sagði Kristinn sem lítur á úrslitakeppnina sem bónus fyrir Stólana.

 

,,Við eigum erfiða leiki eftir en fyrir það fyrsta þá er ég ekki að reyna að komast með liðið í úrslitakeppnina. Það hefur aldrei verið takmarkið hjá okkur. Takmarkið er að halda okkur uppi í deildinni og við erum á ágætum stað til þess að það náist. Úrslitakeppnin hefur alltaf verið bónus hjá okkur því okkur var spáð falli fyrir þessa leiktíð. Öll liðin í deildinni spáðu okkur falli en að við skulum vera í þessari stöðu núna er strax orðið að sigri í okkar huga,” sagði Kristinn en Tindastóll er í 8. sæti deildarinnar með 12 stig og eru eins og sakir standa síðasta liðið inn í úrsltiakeppnina, stór bónus þar á ferð.

 

Næstu leikir liðsins eru gegn Snæfell á heimavelli, Keflavík á útivelli, KR á heimavelli og svo Fjölni á útivelli í síðustu umferð deildarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024