Krísa í Grindavík?
- Óskar Pétursson skammast sín fyrir spilamennskuna hjá Grindvíkingum
Það er óhætt að segja að Grindvíkingar hafi ekki staðið undir væntingum í 1. deild karla í fótboltanum. Liðið var grátlega nærri því að komast upp í Pepsi-deildina í fyrra og í ár var búist við þeim gulklæddu sterkari til leiks. Þeir hafa einungis sigrað einn leik af sjö þetta sumarið og sitja sem stendur í næstneðsta sæti deildarinnar og fallið blasir við. Grindvíkingar eru að sjálfsögðu ekki af baki dottnir en þeir hafa séð það svartara. Markvörðurinn Óskar Pétursson hefur háð margar fallbaráttur í gegnum árin en hann viðurkennir að Grindvíkingar séu alls ekki í neinni óskastöðu.
„Það er hálfgerð krísa í Grindavík. Þetta er afleit byrjun og það hefur allt fallið á móti okkur. Við erum þó fyrst og fremst búnir að spila illa og ekki hægt að afsaka það,“ segir Óskar hreinskilinn. Hann segir að liðið hafi mætt tilbúið til leiks en eitthvað virðist vera að hrjá leikmenn. „Ég held að menn hafi mætt tilbúnir í þetta mót. Það tekur á þegar illa gengur, menn eiga erfitt með að glíma við þetta. Við þurfum að snúa blaðinu við, sýna karakter og hífa okkur upp töfluna.“ Grindvíkingar hafa sest niður og rætt gengi liðsins. „Það var fyrst gert eftir tapið í fyrsta leik. Okkur fannst strax sem um krísu væri að ræða þá,“ segir Óskar en hann horfir þó á björtu hliðarnar. „Núna er ekkert annað í stöðunni en að reyna að finna gleðina á ný.“
Ætlum að gera hið ómögulega og fara upp
Þeir sem fylgjast með fótbolta á Íslandi kepptust við að spá Grindvíkingum öruggu sæti í Pepsi-deildinni að ári. Grindvíkingar eru með gríðarlega sterkan hóp og Óskar veit af því.
„Það er skrítin tilfinning að vera með besta hópinn í deildinni, að mínu mati, og vera í næstneðsta sætinu. Það er eitthvað að þegar staðan er þannig. Við þurfum að finna hvað er að og laga það ef ekki á illa að fara.“ Enn er nóg eftir að mótinu og ekki öll nótt úti fyrir Grindvíkinga. Þeir ætla sér ennþá sæti í deild þeirra bestu. „Við ætlum bara að gera hið ómögulega og komast samt upp í úrvalsdeild. Það er núna yfirlýst markmið. Við þurfum að vona að mótið verði jafnt og við fáum tækifæri til þess að koma okkur inn í þetta aftur.“
Óskar segist ekki vita hvað hafi breyst frá því í fyrra, þegar liðinu gekk vel og var nærri því að komast upp. Umgjörðin og stuðningurinn við liðið sé ennþá til fyrirmyndar.
„Það eru allir í kringum klúbbinn búnir að standa sig frábærlega og umgjörðin er eins og best verður á kosið á Íslandi. Maður hálfpartinn skammast sín yfir því hvernig við erum búnir að vera að spila. Þetta er nánast vanvirðing við þá sem eru búnir að standa með okkur. Við erum þó öll saman í þessu, vinnum saman og töpum saman,“ segir Grindvíkingurinn að lokum.