Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Krefjandi að tvinna saman körfuboltann og námið“
Sunnudagur 17. september 2017 kl. 08:00

„Krefjandi að tvinna saman körfuboltann og námið“

- Hafði alltaf hugsað sér að fara út í nám til Bandaríkjanna

Guðlaug Björt Júlíusdóttir spilar körfubolta með Florida Tech og stundar nám við Florida Institude of Technology. Guðlaug vann sér inn traust þjálfarans eftir nokkra leiki og var stór partur af því að liðið komst alla leið í úrslitin. Hún fékk einnig viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í skólanum sem nefninst „Outstanding student Award”.
Lið Guðlaugar lenti í sjötta sæti í deildinni í fyrra en þegar þær spiluðu í úrslitakeppninni sló liðið hennar út þær sem lentu í þriðja sæti og komust þær því í úrslitaleikinn en töpuðu honum svo. Það hafði aldrei gerst fyrr að lið sem hafði lent í 6. sæti kæmist í úrslit. Við fengum Guðlaugu til að svara nokkrum spurningum um körfuboltann og námið.

Hvað heitir háskólinn sem þú stundar nám við og liðið sem þú spilar með?
„Háskólinn sem ég stunda nám við heitir Florida Institute of Technology og ég spila með skólakörfuboltaliðinu sem er kallað Florida Tech.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig er undirbúningstímabilið ykkar?
„Undirbúningstímabilið er mjög krefjandi þar sem við æfum mjög mikið. Í byrjun er einblínt á að við komum okkur í besta formið og æfum við því mikið án þess að hafa körfuboltann með t.d. með hlaupum og lyftingum. Þjálfarinn minn elskar að vakna á morgnana, til dæmis í fyrra byrjuðu æfingarnar klukkan fimm á morgnana og voru alveg til átta og þá byrjuðu körfuboltaæfingarnar sjálfar. Körfuboltalega séð þá snýst undirbúningstímabilið mest um að  samstilla okkur sem lið.“

Við hvað stundar þú nám?
„Námið sem ég stunda kallast Mechanical Engineering sem er einhvernskonar véla- og tækniverkfræði á íslensku.“

Hvað er tímabilið langt hjá ykkur?
„Fyrsti leikur hjá okkur er 28.október og seinasti leikur 24.febrúar og svo eru úrslitin eftir það. Þannig það fer mikið eftir hvað við stöndum okkur vel.“

Er krefjandi að tvinna saman námið og körfuboltann?
„Já það er mjög krefjandi því að körfuboltinn tekur svo mikinn tíma af deginum þar sem við æfum um tvo og hálfan til þrjá tíma á morgnana, förum svo á myndbandsfund seinni partinn og lyftum þrisvar í viku og því lítill tími eftir til að læra. Það er svo sérstaklega krefjandi þegar tímabilið byrjar því þá missir maður oft úr skóla út af æfingum eða leikjum.“

Er mikið af ferðalögum hjá ykkur?
„Í raun ekki miðað við Bandaríkin. Ég er í deild sem heitir The Sunshine State Confrence þar sem eru bara lið frá Flórida fylki svo ferðalögin er ekki mjög löng.“

Var erfitt að taka ákvörðun að fara út í nám og spila?
„Það að fara út í nám og spila körfubolta í Bandaríkjunum var alltaf eitthvað sem ég hafði hugsað mér að gera. Í fyrravor var ég samt alveg hætt við að fara þar sem að ég átti erfitt með að finna skóla sem hentaði  mér bæði körfuboltalega og námslega en síðan síðan datt ég inn á Florida Tech í maí í fyrra og ákvað því að skella mér. Þetta var erfið ákvörðun að fara því ég vissi í raun ekkert hvort að ég gæti þetta en ég þurfti nauðsynlega breytingu svo þetta var klárlega rétt ákvörðun fyrir mig.“