Kraftmiklir Keflvíkingar komnir í átta liða úrslit
Keflvíkingar tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins þegar þeir lögðu KA 3:1 í hörkuleik á HS orkuvellinum í dag. Það var allt annað lið sem gekk inn á völlinn í dag frá síðasta leik Keflvíkinga. Hjartað var á sínum stað og barist grimmt um alla bolta, ólíkt því andleysi sem virtist hrjá Keflavík gegn Fylki.
Keflavík hafði yfirhöndina frá byrjun og skapaði sér nokkur hættuleg færi. Það fyrsta fékk afmælisbarn dagsins, Sindri Þór Guðmundsson, þegar hann komst einn á móti markmanni sem gerði vel og varði skotið.
Keflvíkingar komust yfir þegar Ástbjörn Þórðarson átti sendingu inn í teig KA og ástralinn Joey Gibbs náði frábæru skot og afgreiddi boltann í netið (39'). Frábærlega vel gert hjá Gibbs sem var mjög ógnandi í leiknum.
Seinni hálfleikur var rétt hafinn þegar KA menn gerðu afdrifarík mistök í vörninni. Þá komst Cristian Volesky inn í slaka sendingu til markvarðar, lék á hann og og skoraði í autt markið til að koma Keflavík í tveggja marka forystu (46').
KA herti á sóknarleiknum og þeir voru nálægt því að minnka muninn á 57. mínútu en Frans Elvarsson náði að bjarga á síðustu stundu. KA-menn vildu meina að boltinn hefði farið í hönd Keflvíkings en vítið fengu þeir ekki.
Á 73. mínútu tók Ingimundur Guðnason góða aukaspyrnu inn í teig KA, þar gnæfði Joey Gibbs yfir aðra, náði góðum skalla og skoraði þriðja mark heimamanna.
KA minnkaði muninn á 83. mínútu beint úr aukaspyrnu. Spyrnan var tekin utarlega og verður að segja að markið hafi verið frekar ódýrt. KA fylgdi markinu vel eftir og tveimur mínútum síðar komu þeir boltanum aftur í mark heimamanna. Þá upphófst mikil reikistefna hjá dómara og línuverði sem endaði á að dæmd var rangstaða og markið ekki látið standa. Eðlilega voru gestirnir ekki sáttir við þá niðurstöðu enda hafði línuvörðurinn ekki lyft flagginu til merkis um rangstöðu.
KA sótti stíft fram á lokamínútu en góð vörn Keflvíkinga stóðst álagið og hleypti gestunum ekki lengra. Keflavík hafði því 3:1 sigur og eru komnir í átta liða úrslit.
Það er ekki annað hægt en að hrósa Keflavíkurliðinu fyrir frammistöðuna en leikur þess í kvöld var hreinlega frábær og sigurinn sanngjarn. Vinnusemi og baráttuvilji allra leikmanna var til fyrirmyndar og er eiginlega ekki annað hægt að segja en að þetta hafi verið sigur liðsheildarinnar.
Joey Gibbs var stöðug ógn við mark KA og vörn Keflavíku þétt og örugg í öllum sínum aðgerðum. Frans Elvarssonn stýrði vörninni eins og kóngur með þá Nacho Heras og Ástbjörn Þórðarson sem hvorugur hleypir nokkrum manni átakalaust fram hjá sér og eru báðir hraðir fram á við.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og má sjá fjölda ljósmynda í myndasafni sem fylgir fréttinni.