Kraftmikil Elsa lyftir sex daga vikunnar
Elsa Pálsdóttir er margfaldur Íslandsmeistari, Evrópumeistari og heimsmeistari í kraftlyftingum. Hún æfir sex daga vikunnar í Lífsstíl í Keflavík og stefnir á mót um komandi helgi. Víkurfréttir hittu Elsu ásamt þjálfara sínum, Kristleifi Andréssyni, í Lífsstíl þar sem þau æfðu fyrir komandi mót. Innslag um Elsu og kraftlyftingarnar er í Suðurnesjamagasíni vikunnar á sjóvarpsstöðinni Hringbraut og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 19:30.
„Ég hef haldið til í líkamsræktarsal megnið af minni ævi en svo áttaði ég mig á því hvar styrkleikarnir lægju. Ég var farin að sjá að ég var bara nokkuð sterk og ákvað þá að gefa lyftingum tækifæri og fókusera bara á kraftlyftingarnar og sjá hvert það myndi leiða mig en var grunlaus um hvert það leiddi mann.“
Hvað varstu búin að vera að gera í þreksalnum fram að því, bara í venjulegri leikfimi?
„Já, já og allavega æfingum. Það má segja að ég hafi verið í fjölbreyttum hóptímum til ársins 2011 þegar ég tók upp á því að taka þátt í þrekmótakeppnum. Þar fann ég keppnisbragðið. Ég prófaði svo að taka þátt í kraftlyftingamóti sem var haldið í tengslum við Sólseturshátíðina í Garðinum. Ég vildi reyna mig þar því ég vissi að ég ætti mögulega heima í lyftingum. Ég sá það á þessu móti í Garðinum að ég átti svolítið inni. Ég vissi reyndar ekkert um reglurnar í íþróttinni en fékk leiðsögn og fannst þetta bara skemmtilegt. Ég tók aftur þátt í móti í Garðinum ári síðar og í framhaldi af því ákvað ég að gefa kraftlyftingum séns og hef verið með fókusinn þar. Frá árinu 2011 hef ég æft sex sinnum í viku í líkamsræktarsal. Eftir fyrsta mótið í Garðinum ákvað ég að taka einn dag í viku í kraftlyftingar. Eftir annað mótið bætti ég í lyftingaæfingar og æfði þær þrjá daga í viku. Fljótlega tók ég ákvörðun um að helga mig þessu og síðan þá hef ég verið að æfa kraftlyftingar sex daga vikunnar.“
Sá möguleika á metum
Með hvaða markmiði hefur þú verið að æfa?
„Í og með var ég bara að gera þetta fyrir sjálfa mig en svo var ég alveg búin að sjá það að ég átti möguleika á Íslandsmetum og lengra hafði hugur minn ekki leitað.“
Þú vissir hver Íslandsmetin voru og varst jafnvel að lyfta meiru á æfingum?
„Já, ég sá það að ég átti alveg möguleika á að setja Íslandsmet og hef gert þau ansi mörg. Í vor, þegar ég fékk boð um að koma á Evrópumót, þá fékk ég upplýsingar um heimsmetin og ég hafði ekki hugsað út í það – en þegar ég sá þau þá sá ég að ég átti alveg möguleika og það kom mér virkilega á óvart.“
Elsa tók þátt í fyrsta Íslandsmótinu í kraftlyftingum í nóvember árið 2019 og setti Íslandsmet á því móti. Síðan þá hefur hún tekið þátt í nokkrum mótum og hefur í dag sett yfir 40 Íslandsmet í sínum greinum í sínum aldurs- og þyngdarflokki.
Kom þá upp í þér keppnismanneskjan að ráðast á heimsmetin?
„Ekki fyrr en ég sá upplýsingar um hver heimsmetin voru, þá fyrst vaknaði sá metnaður. En auðvitað fær maður metnað fyrir því að setja heimsmet þegar maður sér að það er möguleiki fyrir því.“
Lítill hópur á hennar aldri í kraftlyftingum
Elsa segir að hérlendis sé það lítill hópur sem stundar kraftlyftingar á hennar aldri en erlendis sé þónokkuð af fólki á hennar aldri að æfa kraftlyftingar. Það hafi einnig komið henni á óvart hvað það voru margir sem eru töluvert eldri en hún sem séu að æfa íþróttina í Evrópu. Elsa er rétt liðlega sextug en hún fór á Evrópumót í júlí þar sem hún setti fimm heimsmet og varð Evrópumeistari.
„Það var freistandi að fylgja árangrinum eftir og ég fór því á heimsmeistaramótið til að reyna að bæta heimsmetin. Það tókst og ég setti þrjú heimsmet þar og var krýndur heimsmeistari.“
Þannig að þetta er búið að vera skemmtilegt?
„Þetta er búið að vera viðburðaríkt ár og ég kom mér á óvart og örugglega jafnmikið og öllum hinum.“
Þjálfarinn hefur gert kraftaverk
Elsa segist í dag spá mikið í hvernig hún æfi og einnig hvað hún sé að borða. Hún segist þó geta gert betur þar.
Í lyftingasalnum er Elsa með aðstoð frá þjálfara. Kristleifur Andrésson hefur verið að þjálfa Elsu og hún segir hann hafa gert kraftaverk. Elsa segir að til þess að ná árangri í kraftlyftingum þurfi númer eitt og tvö að vera líkamlega sterkur. Þriðja atriðið sé svo að vera sterkur í hausnum. Andlegi þátturinn sé stór í lyftingum og sérstaklega þegar verið er að fást við meiri þyngdir. Þá skiptir hugurinn miklu máli.
Framundan hjá Elsu er þátttaka á móti innanlands þann 20. nóvember. Þá er stefnan sett á mót í Litháen í mars á næsta ári og taka þar þátt í Evrópumóti.
Hvað er það sem drífur þig sextuga konuna áfram í þessu? Er þetta svona skemmtilegt?
„Ég væri ekki í þessu nema mér þætti þetta skemmtilegt. Þetta er skemmtilegt og ekki skemmir fyrir að það er skemmtilegt að taka þátt í því þar sem maður stendur sig vel.“
Æfingar Elsu eru frá einum og hálfum klukkutíma og upp í þrjá í dag, alla daga nema sunnudaga, þegar tekið er frí. Hún segist aldrei æfa lyftingar á sunnudögum en það komi ekki í veg fyrir að fara í göngutúr á sunnudegi.