Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kraftlitlar Keflavíkurstúlkur töpuðu í Hafnarfirði
Sunnudagur 8. febrúar 2009 kl. 22:38

Kraftlitlar Keflavíkurstúlkur töpuðu í Hafnarfirði

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Keflavíkurstúlkur fóru enga fræðgarför í Fjörðinn þegar þær steinlágu fyrir Haukum í Iceland Express deildinni í körfubolta í kvöld. Lokatölur urðu 82-67 eftir að staðan í hálfleik hafi verið 53-30.


Fyrsti leikhlutinn var nokkuð jafn eða 21-17 en í öðrum leikhluta fóru Haukastúlkur hamförum og hreinlega völtuðu yfir Íslandsmeistarana. Fimm þriggja stiga skot rötuðu ofan í og það í röð. Vörn Hauka var líka feikna sterk og komust Keflvíkingar ekkert áleiðis gegn henni. Þriðji leikhluti var jafn og Keflavík bætti stöðuna í loka leikhlutanum og vann hann með átta stigum og kom stigamuninum úr þrjátíu stigum í fimmtán.

Slavica Dimovska var frábær í Hauka liðinu og setti niður 7 þrista í 11 tilraunum sem er ekki slæmur árangur! Hún skoraði 31 stig og var besti maður vallarins.

Hjá Keflavík var fyrrverandi Haukakonan, Pálína Gunnlaugsdóttir atkvæðamest með 15 stig, Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 13 stig og Marín Rós Karlsdóttir 10 stig. Birna Valgarðsdóttir skoraði aðeins 4 stig og má hreinlega segja að þar á bæ hafi vantað að minnsta kosti tuttugu stig. En Birna hefur verið veik síðustu daga og gekk ekki heil til skógar.

Með sigrinum tryggðu Haukastúlkur sér deildarmeistaratitilinn.

Birna Valgarðsdóttir mátti sín lítils gegn Haukastúlkum. Hér er hún í baráttu við besta leikmann vallarins, Slavica Dimovska.  Á efstu myndinni má sjá Jón Halldór, þjálfara, ekki mjög sáttan með stöðu mála í leiknum sem lið hans sá aldrei til sólar í nema rétt aðeins í byrjun. VF-myndir/pket.

Svava Ósk Stefánsdóttir í vörninni og Pálína (á neðri mynd) í sókninni.